Fótbolti

Brjálaður yfir fréttum að De Jong hafi gert sér upp veikindi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lögmæti veikinda Frenkies de Jong var dregið í efa.
Lögmæti veikinda Frenkies de Jong var dregið í efa. getty/Pedro Salado

Umboðsmaður Frenkies de Jong segir ekkert til í því að hann hafi gert sér upp veikindi til að missa af leik Barcelona gegn Antwerp í Meistaradeild Evrópu.

Barcelona tapaði óvænt fyrir Antwerp, 3-2, í lokaleik sínum í H-riðli Meistaradeildarinnar á miðvikudaginn.

De Jong lék ekki með Barcelona í leiknum vegna veikinda. Hann hringdi í Deco, íþróttastjóra Barcelona, til að tilkynna honum um veikindin en samkvæmt RAC1 var hann ekki sannfærður um að hollenski miðjumaðurinn væri raunverulega veikur.

Umboðsmaður De Jongs, Ali Dursun, var ekki sáttur við þennan fréttaflutning og gagnrýndi hann í viðtali við De Telegraaf í Hollandi.

„Algjörar falsfréttir. Þetta er mesta kjaftæði sem hefur verið skrifað um Frenkie í langan tíma,“ sagði Dursun.

„Leikmaðurinn er bara veikur. Hann var með hita og gat ekki ferðast og spilað. Strákurinn er atvinnumaður fram í fingurgómana. Það öskraði enginn í símann eins og haldið var fram. Það er verið að búa til hluti. Sambandið við Deco er stöðugt og gott.“

Barcelona hefur tapað tveimur leikjum í röð en liðið laut í lægra haldi fyrir Girona, 2-4, á heimavelli í spænsku úrvalsdeildinni fyrir viku. Næsti vikur Barcelona er gegn Valencia á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×