Fótbolti

Madrídingar með fullt hús stiga eftir endurkomusigur

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Dani Ceballos tryggði Real Madrid sigur í kvöld.
Dani Ceballos tryggði Real Madrid sigur í kvöld. David S.Bustamante/Soccrates/Getty Images

Real Madrid endaði riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu með fullt hús stiga eftir ótrúlegan endurkomusigur gegn Union Berlin í C-riðli í kvöld.

Madrídingar fengu gullið tækifæri til að taka forystuna á lokamínútu venjulegs leiktíma í fyrri hálfleik þegar liðið fékk vítaspyrnu. Luka Modric fór á punktinn, en Króatinn margreyndi lét verja frá sér.

Berlínarliðið var ekki lengi að refsa og tók forystuna strax í næstu sókn með marki frá Kevin Volland og heimamenn fóru því með 1-0 forystu inn í hálfleikinn.

Joselu jafnaði þó metin fyrir Madrídinga á 61. mínútu og hann var aftur á ferðinni þegar hann kom liðinu yfir með marki rúmum tíu mínútum síðar.

Varamaðurinn Alex Kral jafnaði hins vegar metin á ný fyrir Union Berlin þegar aðeins fimm mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma, en Dani Ceballos tryggði Madrídingum dramatískan sigur með marki á 89. mínútu.

Real Madrid endar því með 18 stig af 18 mögulegum í C-riðli og er á leið í 16-liða úrslit upp úr C-riðli, ásamt Napoli sem vann 2-0 sigur gegn SC Braga á sama tíma.

Þá vann Benfica 1-3 sigur gegn Salzburg í D-riðli og Inter og Real Sociedad gerðu markalaust jafntefli. Inter og Real Sociedad höfðu þegar tryggt sér sæti í 16-liða úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×