Fótbolti

Líkir undrabarni Arsenal við Wilshere

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ethan Nwaneri kemur inn á í leik Brentford og Arsenal 18. september í fyrra. Hann var þá aðeins fimmtán ára og 181 dags gamall.
Ethan Nwaneri kemur inn á í leik Brentford og Arsenal 18. september í fyrra. Hann var þá aðeins fimmtán ára og 181 dags gamall. getty/Jacques Feeney

Sextán ára ungstirni gæti spilað fyrir Arsenal þegar liðið mætir PSV Eindhoven í Meistaradeild Evrópu í kvöld.

Arsenal er búið að tryggja sér sigur í B-riðli Meistaradeildarinnar og PSV er öruggt með 2. sætið. Úrslitin í leik kvöldsins hafa þannig engin áhrif á lokastöðuna í riðlinum og því gætu minni spámenn fengið að spreyta sig í kvöld.

Meðal þeirra sem gæti komið við sögu hjá Arsenal í kvöld er Ethan Nwaneri. Hann varð yngsti leikmaður í sögu ensku úrvalsdeildarinnar þegar hann spilaði í 3-0 sigri Arsenal á Brentford í fyrra, aðeins fimmtán ára, og hann er í miklum metum hjá Mikel Arteta, knattspyrnustjóra liðsins. Hann líkti honum við leikmann sem lét einnig ungur að sér kveða með Arsenal.

„Hann hefur einstaka hæfileika til að fá boltann og losa sig í þröngum stöðum eins og Jack Wilshere gerði,“ sagði Arteta.

„Með persónuleikann, þá æfir hann með okkur eins og hann æfir með U-18 ára liðinu og ég elska það. Á hverjum einasta degi vill hann sýna hversu góður hann er.“

Ef Nwaneri kemur við sögu í kvöld verður hann yngsti leikmaður Arsenal til að spila í Meistaradeildinni.

Leikur PSV og Arsenal hefst klukkan 17:45 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 3.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×