Erlent

Fréttaþulur BBC gaf á­horf­endum puttann

Boði Logason skrifar
Maryam Moshiri er miður sín eftir að hafa gefið bresku þjóðinni fingurinn. Einkahúmor sem átti aldrei að fara í loftið, segir hún.
Maryam Moshiri er miður sín eftir að hafa gefið bresku þjóðinni fingurinn. Einkahúmor sem átti aldrei að fara í loftið, segir hún. BBC

Áhorfendum breska ríkisútvarpsins brá heldur betur í brún þegar þeir stilltu á stöðina síðdegis í gær. Þar blasti fréttaþulurinn við þeim með löngutöng á lofti.

Maryam Moshiri, sem er einn virtasti þulur stöðvarinnar og hefur starfað þar í sextán ár, gaf áhorfendum fingurinn eftir að talið hafði verið niður að fyrstu frétt. Í kjölfarið las hún frétt um að Boris Johnson, fyrrverandi forsætisráðherra, hefði beðið þjóðina afsökunar vegna þjáninga þeirra í heimfaraldrinum.

Myndbrotið fór eins og eldur um sinu á samfélagsmiðlum og veltu margir fyrir sér hvað henni gekk til. 

Í yfirlýsingu sem hún sendi frá sér í morgun baðst hún afsökunar sagðist einungis hafa verið að grínast í samstarfsfélögum sínum. Hún hafi verið að herma eftir framleiðandanum sem hafi verið að telja niður frá 10, og hún hafi í gríni endað á löngutönginni. 

„Þetta var einkahúmor hjá okkur á fréttagólfinu og mér þykir leitt að þetta fór í loftið. Þetta átti aldrei að vera í mynd og mér þykir leitt ef ég særði einhvern. Þetta var brandari sem átti einungis að vera fyrir nokkra samstarfsmenn mína,"

Breska ríkisútvarpið hefur ekki tjáð sig um atvikið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×