Körfubolti

Segir að einn bolti sé ekki nóg fyrir Clippers

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
James Harden, Russell Westbrook og félagar þeirra í Los Angeles Clippers hafa valdið vonbrigðum í vetur.
James Harden, Russell Westbrook og félagar þeirra í Los Angeles Clippers hafa valdið vonbrigðum í vetur. getty/Ronald Martinez

PJ Tucker, reynsluboltinn hjá Los Angeles Clippers, dró vandræði liðsins saman í eina setningu í nýlegu viðtali.

Í upphafi tímabilsins fékk Clippers James Harden frá Philadelphia 76ers. Fyrir voru stórstjörnurnar Kawhi Leonard, Russell Westbrook og Paul George hjá liðinu.

Clippers tapaði fyrstu fimm leikjunum eftir komu Hardens en rofað hefur til að undanförnu og liðið unnið sex af síðustu níu leikjum sínum. 

Clippers er samt bara í 9. sæti Vesturdeildarinnar með níu sigra og tíu töp og Tucker þykist vita hvert vandamál liðsins er.

„Það eru ekki nógu margir körfuboltar á jörðinni fyrir þetta lið,“ sagði Tucker og vísaði til þess að Clippers er með fjórar stórstjörnur sem eru allar vanar því að vera mikið með boltann og taka mörg skot.

Tucker er eldri en tvævetur í bransanum en þessi 38 ára leikmaður hefur verið atvinnumaður í körfubolta í sautján ár.

Tucker verður ekki sakaður um að vera þurftafrekur í sókn Clippers. Hann er með 1,2 stig á þeim 14,4 mínútum sem hann spilar að meðaltali í leik.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×