Handbolti

„Hlakka til að berja að­eins á þeim“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Díana Dögg er spennt fyrir því að berja á stjörnum franska liðsins.
Díana Dögg er spennt fyrir því að berja á stjörnum franska liðsins. Vísir/Hulda Margrét

Hægri skyttan Díana Dögg Magnúsdóttir segir að það þýði ekki að dvelja við tap Íslands fyrir Slóveníu í fyrsta leik á HM í fyrradag. Afar spennandi verkefni gegn Frakklandi er fram undan í dag.

Ísland tapaði á svekkjandi hátt fyrir Slóveníu í fyrsta leik og Díana Dögg segir að þar hafi orkuleysi kostað íslenska liðið eftir að hafa elt andstæðinga sína svo lengi.

„Þetta afleit byrjun á mótinu en við náum sem betur fer að koma okkur aðeins til baka. En það er oft erfitt þegar mikil orka fer í að elta svona leiki, þá er erfitt að halda það út. Það er kannski þess vegna sem við endum með að tapa með sex mörkum,“ segir Díana sem segir að það þýði þó ekkert að pæla í þeim leik, skammt er stórra högga á milli.

„Við verðum að hugsa strax um næsta leik og koma okkur í hann. Það þýðir ekki dvelja við þetta of lengi.“

Ekki hægt að nálgast leiki öðruvísi en að ætla sér sigur

Frakkar eru verkefni dagsins. Díönu líst vel á að mæta einu sterkasta liði heims og ríkjandi Ólympíumeisturum.

„Mér líst mjög vel á það. Ég hlakka til að berja aðeins á þeim. Við munum koma gíraðar og sterkar inn í þann leik.“ segir Díana sem segir jafnframt að Ísland fari pressulaust í leik við svo sterkt lið.

Klippa: Hlakkar til að berja á Frökkunum

„Við þurfum að fara þannig algjörlega inn í þennan leik, þær eru Ólympíumeistarar og eru eitt besta lið í heimi. En við eigum samt að horfa stórt á okkur sjálfar. Ef þær ætla eitthvað að slaka á þurfum við að nýta okkur það,“

„Ég vil vinna alla leiki og það skiptir engu máli á móti hverjum það er eða hversu stórt liðið er. Það er alltaf séns að vinna leiki, lottóið er einn á móti milljón og það er sama í handbolta. Þetta eina litla prósent getur alltaf unnið,“ segir Díana Dögg.

Ísland mætir Frakklandi klukkan 17:00 í DNB-Arena í Stafangri í dag. Vísir fylgir liðinu eftir hvert fótmál og færir allar nýjustu fréttir af liðinu eftir því sem þær berast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×