Handbolti

Segir að Þórir og stelpurnar hans fái sér­með­ferð á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórir Hergeirsson hefur gert frábæra hluti með norsku stelpurnar.
Þórir Hergeirsson hefur gert frábæra hluti með norsku stelpurnar. Getty/Dean Mouhtaropoulos

Óánægja er meðal höfuðandstæðinga norska handboltalandsliðsins á HM kvenna í handbolta. Ástæðan er að norsku stelpurnar fá fleiri hvíldardaga í gegnum mótið.

Norska landsliðið hóf keppni í gær með 32 marka sigri á Grænlandi í gærkvöldi og norska liðið fær tvo fleiri hvíldardaga en sem dæmi landslið Svíþjóðar og Danmerkur sem eru líka á heimavelli á þessu heimsmeistaramóti.

„Þetta er augljós ávinningur fyrir norska liðið. Það er ekki hægt að sjá þetta á neinn annan máta,“ sagði Tomas Axner, þjálfari sænska landsliðsins við Aftonbladet.

„Mótshaldarar fá alltaf hagsbót af því að halda keppnina. Norðmann fá forskot sem og líka Svíþjóð og Danmörk. Við þurfum hins vegar að ferðast mest af öllum, erum með minnsta tímann á milli leikja og eigum fyrir höndum erfiðust leiðina inn í undanúrslitin,“ sagði Per Johansson við Aftonbladet en hann er sænskur landsliðsþjálfari hollenska landsliðsins.

„Við erum samt ekki að vorkenna okkur sjálfum vegna þessa. Við munum halda HM 2025 (með Þýskalandi) og þá munum við græða á því. Okkar tími mun því koma,“ sagði Johansson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×