Fótbolti

Komu Heimi á ó­­vart í beinni í Bítinu

Aron Guðmundsson skrifar
Heimir Hallgrímsson, núverandi landsliðsþjálfari Jamaíka
Heimir Hallgrímsson, núverandi landsliðsþjálfari Jamaíka Getty

Heimi Hall­gríms­syni, lands­liðs­þjálfara karla­liðs Jamaíka í fót­bolta, var komið skemmti­lega á ó­vart í beinni útsendingu í Bítinu á Bylgjunni í morgun þar sem að hann var til við­tals frá Vest­manna­eyjum. Um­sjónar­menn Bítisins brustu í söng, Heimi til heiðurs, í upp­hafi við­talsins.

„Þetta var geggjað,“ sagði Heimir skelli­hlæjandi eftir að hafa heyrt frum­saminn texta um­sjónar­manna Bítisins við lagið Jama­i­ca sem var á sínum tíma samið af Finn­boga Kjartans­syni og flutt af Vil­hjálmi Vil­hjálms­syni. „Ég ætla rétt að vona að þið séuð ekki að semja lög um alla sem koma til ykkar í þáttinn.“

Heimir er nú mættur aftur til Ís­lands í smá frí eftir að hafa komið Jamaíka í Copa-America álfukeppnina í fót­bolta með því að hafa slegið Kanada út í tveggja leikja ein­vígi í átta liða úr­slitum Þjóða­deildarinnar.

„Það er alltaf gott að koma heim. Það er eitt­hvað í loftinu hérna sem að nærir mann og róar mann að­eins niður.“

Heimir Hallgrímsson stýrir Reggístrákunum, karlalandsliði Jamaíku í knattspyrnu og nýtur þar liðsinnis Guðmundar Hreiðarssonar, markmannsþjálfara. Omar Vega/Getty Images

Heimir fluttist bú­ferlum til Jamaíka eftir að hafa tekið við starfi lands­liðs­þjálfara fyrir rúmu ári síðan.

„Það er margt öðru­vísi (í Jamaíka). Við fjöl­skyldan höfum nú reynt ýmis­legt í gegnum árin. Vorum til að mynda í þrjú ár í Katar, múslima­ríki, þar sem að var röð og regla og allir fóru eftir lögum. Svo förum við yfir til Jamaíka þar sem er kannski ekkert mikið af lögum og ef þau eru þá er öllum alveg sama um þau. Þetta er sitt­hvor endinn á kúltúr. Þetta er alveg ó­trú­lega lær­dóms­ríkt og mjög ólík menning fyrir okkur Ís­lendinga að fara þangað. Ég myndi segja fyrir minn smekk að þetta sé svo­lítið meira ó­reiðu­kennt í öllu.“

Eins og fyrr sagði tókst Jamaíka að tryggja sér sæti á Copa America á næsta ári með því að slá út sterkt lið Kanada. Jamaíka tapaði fyrri leiknum en náði að snúa ein­víginu sér í vil í þeim seinni á úti­velli.

„Kanada er hærra skrifað lið heldur en Jamaíka. Voru til að mynda á meðal þátt­töku­þjóða á síðasta HM, hafa verið að standa sig mjög vel og eru með leik­menn í ansi góðum liðum. En það var eitt­hvað í kortunum þarna. Ég var alltaf með það ein­hvern veginn í huga að við myndum slá þá út.“

Þá hafi leik­menn Jamaíka tekið af skarið.

„Það voru eigin­lega bara leik­mennirnir sem á­kváðu þetta. Að fara all-in. Það var engu að tapa hvort sem er. Ég myndi segja að þetta hafi verið meira þeir heldur en ég. Að á­kveða að breyta við­horfinu gagn­vart þessu verk­efni. Taka á­hættu og hún borgaði sig. Stundum taka þjálfarar ein­hverja á­hættu og þá eru þeir hálf­vitar ef það klikkar. En í þessu til­felli heppnaðist þetta.“

Við­talið við Heimi í heild sinni má hlusta á hér fyrir ofan en þar fer hann meðal annars yfir fót­bolta­menninguna og lífið í Jamaíka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×