Erlent

Út­göngu­bann í Síerra Leóne eftir á­rásir og frelsun fanga

Hólmfríður Gísladóttir og Lovísa Arnardóttir skrifa
Tálmum var komið upp og öryggisgæsla aukin í kjölfar árásanna í gær.
Tálmum var komið upp og öryggisgæsla aukin í kjölfar árásanna í gær. epa/Ibrahim Barrie

Útgöngubann er í gildi í Síerra Leóne eftir að vopnaðir menn ruddust inn í fangelsi í landinu og frelsuðu fanga. Samkvæmt yfirvöldum áttu árásirnar sér stað í gærmorgun, í fjölda stórra fangelsa. Fjórtán Íslendingar eru í Síerra Leóne samkvæmt tilkynningu utanríkisráðuneytisins. 

Forsetinn Julius Maada Bio sagði seint í gær að leiðtogarnir á bak við árásirnar hefðu verið handteknir.

Bio ávarpaði þjóðina og sagði um að ræða öryggisbrest og atlögu að lýðræðinu. Hann gekk þó ekki svo langt að tala um tilraun til valdaráns en ástandið í landinu hefur verið spennuþrungið frá því að Bio var endurkjörinn í sumar, í afar umdeildum og ógegnsæum kosningum.

Forsetinn sagði yfirvöld hafa náð stjórn á ástandinu en gaf ekkert upp um árásarmennina né hvað þeim gekk til með frelsun fanganna.

Útgöngubanni var lýst yfir strax í kjölfar árásanna en íbúum hefur verið ráðlagt að halda sig heima og þá hefur allt flug um eina alþjóðaflugvöll landsins verið fellt niður.

Samkvæmt BBC sást til vopnaðra hermanna í Freetown í stolnum lögreglubifreiðum og þá heyrðust hópar hrópa að þeir hygðust „hreinsa Síerra Leóne“. Myndskeið sýna fanga flýja Pademba Road fangelsið í Freetown og þá sást til rappara sem var fangelsaður í fyrra.

Fjöldi hermanna var handtekinn í landinu í ágúst síðastliðnum en mennirnir voru grunaðir um að hyggja á valdarán. Átta ríki í Vestur- og Mið-Afríku eru undir herstjórn eftir valdarán, meðal annars nágrannaríkið Gínea.

Í sambandi við fjórtán Íslendinga

Fram kom í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu í gær að ráðuneytið hefur verið í sambandi við alls fjórtán Íslendinga í Síerra Leóne. Meðal þeirra eru tveir starfsmenn sendiráðs Íslands í Freetown og tveir fjölskyldumeðlimir. Engin ákvörðun hefur verið tekin um brottflutning Íslendinga, en utanríkisráðuneytið og starfsfólk sendiráðsins fylgist náið með stöðu mála og er í reglulegum samskiptum við samstarfsríki.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×