Erlent

For­eldrar stúlkunnar sam­þykkja sam­bandið

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Mike Villa Fonseca er í vandræðum.
Mike Villa Fonseca er í vandræðum. Instagram/Mike Villa Fonseca

Foreldrar 15 ára stúlkunnar sem á í sambandi með 28 ára þingmanni Moderaterne í Danmörku segjast samþykkja sambandið. Þau hafi vitað að það myndi vekja athygli.

Sjálensku foreldrarnir sem kusu að halda nafnleynd ræddu við Ekstra Bladet og segja að Mike Villa Fonseca, stjórnarþingmaður, hafi verið góðkunnur fjölskyldunni í fleiri ár. Faðir stúlkunnar segist hafa kynnst Mike í gegnum sameiginlegan áhuga þeirra á mótorhjólum fyrir einhverjum árum síðan.

Síðustu fimm árin hefur þingmaðurinn verið fjölskylduvinur samkvæmt foreldrum stúlkunnar og að fyrir fimm mánuðum síðan hafi hann tekið foreldrana á spjall og sagt þeim að hún væri „ótrúlega sæt stelpa“ og að þau væru orðin hrifin hvort af öðru.

Samkvæmt Ekstra Bladet voru foreldrarnir hikandi fyrst um sinn en kusu að veita sambandinu samþykki sitt. Þau segjast treysta bæði fimmtán ára dóttur sinni og þingmanninum.

„Umhyggjusamur kærasti“

„Þetta gerðist allt svolítið hratt en það er jú ekkert að því. Fólk bregst auðvitað misvel við aldursmuninum,“ segir faðir stúlkunnar við Ekstra Bladet.

Foreldrarnir segja einnig að hefðu þau bannað dóttur sinni að eiga í sambandi við hann, hefði hún hitt hann hvort eð er.

„Því erum við ánægð að þau komu til okkar,“ sögðu foreldrarnir og bættu því við að Mike væri „umhyggjusamur kærasti.“ Svo virðist sem lögreglan sé ekki sammála þessari niðurstöðu foreldranna. Samkvæmt TV 2 hefur Mike Villa Fonseca nefnilega verið ákærður fyrir tælingu.

Forsvarsmenn Moderaterne hafa sagt að þingmaðurinn fái ekki að snúa aftur í raðir flokksins og segjast vona að aðrir flokkar taki undir.

Villa Fonseca hefur nefnt þrjá flokka sem hann sér fyrir sér að ganga í eftir að hafa verið kastað úr Moderaterne, nefnilega Socialdemokratiet, Venstre og Liberal Alliance. Allir þrír hafa sagst ekki vilja fá hann.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×