Man City og RB Leipzig bæði komin á­fram

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Heimamenn fagna.
Heimamenn fagna. EPA-EFE/PETER POWELL

Evrópumeistarar Manchester City eru komnir áfram í sextán liða úrslit Meistaradeildar Evrópu. Það er RB Leipzig einnig en liðin eru á toppi G-riðils. 

Það tók heimamenn í Man City heldur langan tíma að brjóta ísinn svona ef miðað er við yfirburði þeirra. Það var hins vegar eftir rúmlega tuttugu mínútur sem Man City fékk vítaspyrna eftir að Sandro Lauper braut klaufalega af sér innan vítateigs.

Ederson reynir að losa bláan reyk af vellinum.EPA-EFE/PETER KLAUNZER

Erling Braut Håland fór á punktinn og skoraði eins og hann gerir í nærri hverjum einasta leik. Það var svo í uppbótartíma sem Phil Foden skoraði eftir frábæran einleik og staðan 2-0 í hálfleik.

Håland skoraði svo annað mark sitt í upphafi síðari hálfleiks og örskömmu síðar fékk Lauper sitt annað gula spjald og þar með rautt. Þrátt fyrir að vera manni fleiri þá skoruðu heimamenn ekki fleiri mörk og leiknum lauk með 3-0 sigri Man City.

Í Serbíu kom Xavi Simons gestunum yfir snemma leiks. Lois Openda tvöfaldaði forystuna á 77. mínútu og þó heimamenn hafi mnnkað muninn þökk sé sjálfsmarki Benjamin Henrichs skömmu síðar þá komust þeir ekki nær og Leipzig vann. 

Man City er á toppi G-riðils með fullt hús stiga eftir fjórar umferðir og komið áfram í 16-liða úrslit. Leipzig er með níu stig og er einnig komið áfram. Rauða stjarnan og Young Boys eru bæði með eitt stig og því í harðri baráttu um 3. sætið sem gefur þátttökurétt í Evrópudeildinni.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira