Erlent

Kvarta til ESB vegna full­yrðinga drykkja­fram­leið­enda um endur­vinnslu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Samkvæmt skýrslu er aðeins um helmingur drykkjarflaska endurunninn.
Samkvæmt skýrslu er aðeins um helmingur drykkjarflaska endurunninn. Getty

Bandalag neytendasamtaka í Evrópu hefur kvartað til Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins vegna fullyrðinga drykkjaframleiðenda að umbúðir þeirra séu úr fullendurunnum efnum og/eða séu fullendurvinnanlegar.

Bureau Européen des Unions de Consommateurs (BEUC) segir fullyrðinga fyrirtækja á borð við Coca-Cola, Nestlé og Danon misvísandi, þar sem mun minna hlutfall plastflaskanna sé endurnýtt en fullyrðingarnar gefa til kynna og þá innihaldi þær efni sem geta ekki verið úr endurnýttum efnum.

Þá segir BEUC „grænskreyttar“ umbúðir senda villandi skilaboð til neytenda um sjálfbærni.

Ursula Pachl, aðstoðarframkvæmdastjóri BEUC, segir enga tryggingu fyrir því að plastflöskur séu endurunnar. „Þessi grænþvottur verður að stoppa,“ segir hún.

Drykkjarflöskur úr plasti eru meðal þess rusl sem helst safnast upp á og mengar strendur Evrópu. Evrópubúar drekka enda að meðaltali um 118 lítra af vatni úr umbúðum á ári, þar af 97 prósent úr plastflöskum.

Samkvæmt Zero Waste Europe, sem nýtur stuðnings Evrópusambandsins, er aðeins um helmingur allra plastflaska á borð við þær sem notaðar eru fyrir Coke endurunnar. Samkvæmt skýrslu Zero Waste Europe og fleiri aðila hugnast bæði framleiðendum og neytendum hugmyndin um plastflöskuna sem hægt er að endurvinna aftur og aftur en raunveruleikinn sé einfaldlega annar.

Svokallaður „grænþvottur“ hefur verið nokkuð í umræðunni og í september síðastliðnum samþykkti Evrópuþingið að banna fyrirtækjum að fullyrða um „náttúrulegar“ og „sjálfbærar“ vörur nema í þeim tilfellum þegar hægt er að sanna staðhæfingarnar.

Forsvarsmenn Coca-Cola svöruðu fyrirspurn Guardian um málið og sögðust meðal annars miða að því að safna og endurvinna jafn mikið plast og fyrirtækið framleiðir. Þá setti fyrirtækið aðeins fram fullyrðingar sem það gæti staðið við.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×