Innlent

Niður­lægjandi og meiðandi verknaður ekki bara líkams­á­rás heldur nauðgun

Jón Þór Stefánsson skrifar
Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að háttsemi mannsins væri ekki einungis líkamsárás heldur líka kynferðisbrot.
Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að háttsemi mannsins væri ekki einungis líkamsárás heldur líka kynferðisbrot. Vísir/Hanna

Maður sem hafði verið dæmdur fyrir líkamsárás í Héraðsdómi Reykjaness fyrir að stinga fingri sínum í endaþarm annars manns hlaut þyngri dóm Í Landsrétti. Ástæðan er sú að Landsréttur telur brot mannsins ekki bara vera líkamsárás, heldur líka nauðgun.

Atvikið sem málið varðar átti sér stað í mars árið 2020. Í dómi héraðsdóms er atburðarás málsins reifuð. Mennirnir hafi verið saman á veitingastað, og síðan fært sig yfir á heimili sakborningsins, nánar tiltekið í herbergi eða bílskúr.

Brotaþoli heldur því fram að þar hafi maðurinn haldið á flugeldum og verið ógnandi. Þar af leiðandi hafi hann ætlað að forða sér, en maðurinn veitt sér eftirför og skotið að honum flugeldum. Maðurinn var síðan ákærður og dæmdur fyrir að elta manninn, ýta honum til jarðar, halda honum niðri og setja fingur í endaþarm hans.

Í dómi Landsréttar segir að vafalaust sé að háttsemin sem málið varðar hafi verið niðurlægjandi og meiðandi.

„Ekki er skilyrði svo [verknaðurinn] geti talist nauðgun […] að hvatir ákærða hafi verið af kynferðislegum toga. Nægjanlegt er að um hafi verið að ræða athafnir sem almennt séu til þess fallnar að veita hinum brotlega kynferðislega fullnægju,“ segir í dómnum. Þá segir að slá megi því föstu að háttsemi mannsins fallist undir umrædda lýsingu.

Maðurinn hlýtur átján mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm, en í héraði var refsingin þrír skilorðsbundnir mánuðir.

Jafnframt þarf hann að greiða brotaþola 1,5 milljónir í miskabætur, 1,8 milljónir í áfrýjunarkostnað, og 2,2 milljónir í sakarkostnað í héraði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×