Fótbolti

Sjáðu markið: Albert reyndist hetja Genoa í fram­lengdum leik

Aron Guðmundsson skrifar
Albert í leik með Genoa á dögunum
Albert í leik með Genoa á dögunum Vísir/Getty

Albert Guð­munds­son reyndist hetja Genoa er liðið bar 2-1 sigur úr býtum gegn Reggiana í fram­lengdum leik í 32-liða úr­slitum ítalska bikarsins í fótbolta í dag.

Á­kveðið var að gefa Alberti, sem gegnt hefur lykil­hlut­verki í liði Genoa á yfir­standandi tíma­bili, smá hvíld frá byrjunar­liðinu gegn Reggiana sem spilar í næst­efstu deild Ítalíu. Albert fékk sér því sæti meðal vara­manna Genoa í upphafi leiks.

Heima­menn áttu hins vegar eftir að lenda í basli með leik­menn Reggiana, sem spila undir stjórn ítölsku goð­sagnarinnar Alessandro Nes­ta, því að á 37. mínútu kom Mu­hamed Djaman­ca þeim yfir með fyrsta marki leiksins.

Þannig stóðu leikar allt þar til á 53. mínútu þegar að Ri­dega­ciano Haps jafnaði metin fyrir Genoa.

Heima­menn þurftu sár­lega á marki og kom Albert því inn sem vara­maður á 76. mínútu. Ekkert mark var skorað það sem eftir lifði venju­legs leik­tíma og því þurfti að fram­lengja.

Þar kom Albert sterkur inn. Hann kom Genoa yfir með marki á 99. mínútu eftir stoð­sendingu frá Ruslan Malin­ov­skyi.

Reyndist það loka­mark leiksins. Genoa er því komið á­fram í 16-liða úr­slit ítalska bikarsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×