Viðskipti innlent

Stýri­­vaxta­hækkanir farnar að bera árangur

Bjarki Sigurðsson skrifar
Hjalti Óskarsson er hagfræðingur hjá Landsbankanum.
Hjalti Óskarsson er hagfræðingur hjá Landsbankanum. Vísir/Arnar

Verðbólga hjaðnar um 0,1 prósentustig milli mánaða og stendur nú í 7,9 prósentum. Hagfræðingur hjá Landsbankanum segir mælinguna ekki koma á óvart og að ljóst sé að stýrivaxtahækkanir Seðlabankans séu farnar að bera árangur. 

Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofunnar hækkaði vísitala neysluverðs um 0,6 prósent milli mánaða. Þýðir það að verðbólga lækkar um núll komma eitt prósentustig á ársgrundvelli og stendur nú í 7,9 prósentum. Mest áhrif hefur kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði sem hækkar um tvö prósent milli mánaða.

Eins og búist var við

Hjalti Óskarsson, hagfræðingur hjá hagfræðideild Landsbankans, segir mælinguna ekki koma á óvart.

„Í rauninni þýðir þetta bara það að þetta er nokkurn veginn eins og við gerðum ráð fyrir, við gerum ráð fyrir að hún breytist ekki sérstaklega mikið, verðbólgan fram að áramótum. Svo mun hún lækka meira strax eftir áramót, þannig þetta er svona í rauninni eins og við bjuggumst við,“ segir Hjalti.

Sveiflukenndu liðirnir hafa áhrif

Hann segir það vera ljóst að stýrivaxtahækkanir Seðlabankans síðustu ár séu farnar að hafa áhrif. Hann gerir ekki ráð fyrir að stýrivextir breytist fram að áramótum.

„Það eru hinir og þessir undirliggjandi þættir sem lækkuðu aftur í þessum mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis lækkaði niður í 7,3 prósent. Lækkar meira heldur en vísitala neysluverðs lækkaði þannig að maður tekur alla svona sveiflukennda liði út þá erum við líka að sjá lækkun á milli mánaða í svokölluðum kjarnavísitölum. Það eru ekki mjög sterkar vísbendingar úr þessari mælingu hvort Seðlabankinn muni hækka stýrivexti eða standa aftur í stað,“ segir Hjalti.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×