Innlent

„Hvalir fram­leiða ekki súr­efni“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Engar ferskar langreyðar verða skornar í Hvalfirði í sumar.
Engar ferskar langreyðar verða skornar í Hvalfirði í sumar. Stöð 2/Egill

Hafrannsóknarstofnun hefur skilað inn umsögn um frumvarp um bann við hvalveiðum þar sem stofnunin tekur ekki formlega afstöðu með eða á móti en gagnrýnir harðlega staðhæfingar í greinargerð með frumvarpinu.

Athugasemdir Hafró beinast að ýmsu því er kemur fram í kafla undir yfirskriftinni „Hvalir eru mikilvægir í vistkerfi sjávar“ og segir að þar komi fram „ýmsar staðhæfingar sem eru ekki í samræmi við núverandi stöðu þekkingar á vistfræðilegum áhrifum hvala“.

Leggur stofnunin til að kaflinn verði endurskrifaður eða honum einfaldlega sleppt.

Í greinargerðinni er því meðal annars haldið fram að hvalir gegni „mikilvægu hlutverki í baráttu gegn loftslagsvá sem er ein helsta ógnin við samfélag okkar“. Hafrannsóknarstofnun segir hins vegar fátt sem bendi til annars en að hvalir hafi hlutfallslega veigalitlu hlutverki að gegna og mikil óvissa sé um flutning og örlög kolefnis frá hvölum.

Þá bendir stofnunin á að grein eftir Ralph Chami, hagfræðing og fyrrverandi stjórnanda hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, um efnahagslegt virði kolefnisbindingar langreyða sé álitsgrein og hafi ekki verið ritrýnd af sérfræðingum.

Um staðhæfinguna „Hvalir framleiða súrefni“ segir einfaldlega: „Hvalir framleiða ekki súrefni“.

Hafrannsóknarstofnun segir tvær aðrar staðhæfingar óljósar en láta, eins og fyrr segir, hjá liggja að lýsa yfir afstöðu með eða á móti frumvarpinu.

Meðal flutningsmanna frumvarpsins eru þingmenn Pírata, Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Flokks fólksins.

Hér má finna umsögn Hafrannsóknarstofnunar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×