Fótbolti

Býst við að Tonali verði klár þrátt fyrir meint brot á veð­mála­reglum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Eddie Howe býst við því að geta notað Sandro Tonali á morgun.
Eddie Howe býst við því að geta notað Sandro Tonali á morgun. Stu Forster/Getty Images

Eddie Howe, knattspyrnustjóri Newcastle, gerir ráð fyrir því að ítalski miðjumaðurinn Sandro Tonali verði klár í slaginn er liðið tekur á móti Borussia Dortmund í Meistaradeild Evrópu á morgun, þrátt fyrir það að leikmaðurinn sæti rannsókn fyrir brot á veðmálareglum.

Tonali bíður þess nú að fá fréttir af rannsókn á máli sínu er varðar meint brot leikmannsins á veðmálareglum, en verði hann fundinn sekur gæti hann átt yfir höfði sér langt bann. Knattspyrnustjórinn Eddie Howe gerir þó ráð fyrir því að Tonali verði með Newcastle er liðið tekur á móti Dortmund annað kvöld.

„Eftir því sem ég best veit þá býst ég við því að hann verði klár á morgun,“ sagði Howe á blaðamannafundi í dag.

„Ég undirbý mig og liðið mitt þannig þar til mér verður sagt eitthvað annað.“

Tonali var sendur heim úr æfingabúðum ítalska landsliðsins fyrr í þessum mánuði, ásamt Nicolo Zaniolo, leikmanni Aston Villa, eftir að fréttir bárust af því að þeir sættu rannsókn vegna meintra brota á veðmálareglum.

Tonali og Zaniolo eru þó ekki einu ítölsku landsliðsmennirnir sem hafa komið sér í klandur vegna brota á veðmálareglum undanfarnar vikur því Nicolo Fagioli, leikmaður Juventus, var í síðustu viku dæmdur í sjö mánaða bann fyrir samskonar brot.

Fagioli fékk alls tólf mánaða bann fyrir brot sín, en þar af eru fimm mánuðir skilorðsbundnir. Þá þarf hann einnig að greiða 12.500 evrur í sekt, sem samsvarar tæplega tveimur milljónum króna.

Newcastle tekur á móti Dortmund í Meistaradeild Evrópu klukkan 19:00 annað kvöld og verður leikurinn í beinni útsendingu á Vodafone Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×