Formúla 1

Gleði­tár streymdu niður kinnar Garcia sem braut blað í sögu mótor­sports

Aron Guðmundsson skrifar
Marta Garcia, ökumaður PREMA Racing er fyrsti F1 Academy meistarinn
Marta Garcia, ökumaður PREMA Racing er fyrsti F1 Academy meistarinn Vísir/Getty

Hin spænska Marta Garcia er fyrsti meistarinn í flokki öku­manna í sögu F1 A­cademy og segir hún það hafa verið til­finninga­þrungna stund að koma í mark í Austin um ný­liðna helgi þar sem meistara­titillinn var tryggður.

Garcia tryggði sér titilinn um ný­liðna helgi þegar keppnis­helgi F1 A­cademy fór fram á Circuit of The Americas í Banda­ríkjunum.

F1 A­cademy er á sínu fyrsta tíma­bili en móta­röðinni er ætlað að greiða götu kvenna upp í For­múlu 1 móta­röðina og eru mörg lið þar sem koma að akademíunni.

Garcia segir það hafa verið til­finninga­þrungna stund þegar að titillinn var í höfn.

„Það gerðu vart um sig margar mis­munandi til­finningar,“ segir Garcia í við­tali við F1.com. „Mér vöknaði um augun þegar að ég kom í mark. Ég grét en það var vegna allrar erfiðis­vinnunnar sem liggur að baki þessum titli hjá okkur í liðinu.“

Marta fagnar með samlanda sínum, Carlos Sainz ökumanni Ferrari í Formúlu 1Vísir/Getty

Garcia ekur fyrir lið PREMA Ra­cing og segir hún sigur síðustu helgar standa upp úr hjá sér á tíma­bilinu.

Um var að ræða fyrstu keppnis­helgina þar sem F1 A­cademy og For­múla 1 eru í sam­floti og Garcia fann fyrir á­hrifum þess.

„Ég myndi segja að þessi sigur sé sá besti. Við vorum í Austin með For­múlu 1, það voru margir í stúkunni og stemningin eftir því.“

Garcia varð meistari ökumanna á meðan að PREMA Racing tryggði sér titilinn í flokki liðaVísir/Getty

Hún segir það að hafa verið sam­hliða For­múlu 1 hafa aukið á spennuna sem fylgdi því að verða meistari.

Garcia telur þetta fyrsta tíma­bil F1 A­cademy slá tóninn fyrir það sem koma skal. Á næsta tíma­bili munu allar keppnis­helgar mótaraðarinnar vera í sam­floti með For­múlu 1 og munu öll lið síðar­nefndu mótaraðarinnar vera með einn kven­kyns öku­mann á sínum snærum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×