Innlent

Allar sundlaugarnar í Reykjavík lokaðar nema ein

Jón Þór Stefánsson skrifar
Laugardalslaug verður ekki opin almenningi á morgun.
Laugardalslaug verður ekki opin almenningi á morgun. Vísir/Vilhelm

Sundlaugarnar í Reykjavík verða lokaðar á morgun vegna kvennaverkfallsins. Þetta staðfestir Eva Bergþóra Guðbergsdóttir samskiptastjóri Reykjavíkurborgar í samtali við Vísi.

Þetta á við um allar laugarnar í Reykjavík sem eru reknar af íþrótta- og menningarsviði. Það eru allar laugarnar fyrir utan Klébergslaug á Kjalarnesi, en hún verður opin aðeins skemur en vanalega, milli 16 og 22.

Eva útskýrir að sú laug sé svo lítil að hægt sé að halda henni opinni þrátt fyrir verkfallið.

Þá segir Eva að hún vænti þess að karlkyns starfsmenn lauganna muni mæta til vinnu á morgun þar sem að nóg sé að gera í laugunum þrátt fyrir lokunina.

Reykjavíkurborg tekst á við verkfallið á annan hátt en Selfoss. Á föstudag var greint frá því að Sundlaug Selfoss myndi ekki taka á móti konum og kvárum af öryggisástæðum. Ástæðan er sú að engin kona verður á vakt og því ekki hægt að taka á móti konum í kvennaklefum sem eru ekki vaktaðir.

Þó muni karlar geta farið í sund á Selfossi og stúlkur yngri en sex ára í fylgd með fullorðnum.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×