Innlent

Fylgja eftir svartri skýrslu um vöggustofurnar

Jón Þór Stefánsson skrifar
Nefndin sem skoðaði mál vöggustofanna ásamt borgarstjóra.
Nefndin sem skoðaði mál vöggustofanna ásamt borgarstjóra.

Borgarráð ætlar að fylgja eftir tillögum nefndar um málefni vöggustofa. Nefndin kynnti niðurstöðu sína í síðustu viku og benti á að vera barna á vöggustofum hafi haft veruleg áhrif á framtíð þeirra. Til að mynda væru lífslíkur þeirra einstaklinga minni en jafnaldra þeirra og þeir líklegri til að glíma við örorku.

Skýrslan varðaði illa meðferð á ungbörnum á Vöggustofunni á Hlíðarenda og Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins frá 1949-1973.

Nefndinni var þakkað fyrir vel unnin störf á fundi borgarráðs í morgun þar sem samþykkt var einróma að fylgja eftir tillögum nefndarinnar.

Lagðar voru til skaðabótagreiðslur til þeirra sem dvöldu lengi á vöggustofunum og jafnframt að þeim yrði boðið upp á geðheilbrigðis- og sálfræðiþjónustu.

Nefndin er jafnframt á því að niðurstöður hennar endurspegli nauðsyn þess að sveitarfélög tryggi að barnaverndarnefndir og starfsmenn þeirra hafi nægilegt svigrúm og tíma til að vinna hvert og eitt mál í samræmi við ákvæði laga og reglna.

Og að lokum lagði nefndin til að frekari athugun yrði gerð á starfsemi vöggustofanna. 

Allar þessar tillögur verða teknar til skoðunar hjá mismunandi örmum Reykjavíkurborgar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×