Innlent

Gert að greiða hús­fé­lagi í Kópavogi 36 milljónir eftir á­kvörðun Hæsta­réttar

Jón Þór Stefánsson skrifar
Málið varðar galla á þakplötu, en húsfélag í Kópavogi hafa verið dæmdar 36 milljónir vegna þess.
Málið varðar galla á þakplötu, en húsfélag í Kópavogi hafa verið dæmdar 36 milljónir vegna þess. Vísir/Vilhelm

Hæstiréttur hefur hafnað málskotsbeiðni Byggingarfélags Gylfa og Gunnars um að taka mál þeirra gegn húsfélaginu Lundi 2 til 6 í Kópavogi. Málið varðar galla þakplötu á bílastæðahúsi sem fylgdi íbúðum í húsunum.

Héraðsdómur dæmdi byggingarfélagið til að greiða rétt tæpar 36 milljónir króna til húsfélagsins. Landsréttur staðfesti síðan þá niðurstöðu og nú hefur Hæstiréttur hafnað að taka það fyrir.

Í úrskurði sínum segir Hæstiréttur að málið hafi hvorki mikla þýðingu, né að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur.

Deilan varðar frágang á þakplötu á sameiginlegri bílastæðageymslu sem fylgdi íbúðunum í Lundi 2 til 6, fjöleignarhúsi í þremur stigahúsum með 59 íbúðum.

Íbúðirnar voru afhentar á árunum 2014 til 2015, en þremur árum eftir það gerði húsfélagið athugasemdir við frágang. Það sagði til að mynda að frágangur yfirborðs bílaplans væri ekki í samræmi við samþykkta verklýsingu, teikningar og eignaskiptayfirlýsingu.

Þá sýndu loftplötur í bílakjallara merki um rakaskemmdir frá lekri þakplötu og að regnvatn og snjóbráð rynnu af gangstéttum út á bílaplanið sem ylli hálkumyndun í frosti.

Byggingarfélagið hafnaði því hins vegar að frágangi væri ábótavant. Dómkvaddir matsmenn komust að þeirri niðurstöðu að skil byggingarfélagsins á plötunni hafi ekki verið forsvaranlegur miðað við aðstæður.

Til að gera við þakplöturnar hefur húsfélaginu verið dæmdar 35,8 milljónir króna af Byggingarfélagi Gylfa og Gunnars.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×