Formúla 1

Verstappen á ráspól en titillinn gæti verið í höfn áður en lagt verður af stað

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Max Verstappen er hársbreidd frá því að tryggja sér sinn þriðja heimsmeistaratitil.
Max Verstappen er hársbreidd frá því að tryggja sér sinn þriðja heimsmeistaratitil. Mark Thompson/Getty Images

Tvöfaldi heimsmeistarinn Max Verstappen verður á ráspól þegar farið verður af stað í katarska kappakstrinum í Formúlu 1 á morgun. Það gæti þó verið að Hollendingurinn verði búinn að tryggja sér heimsmeistaratitilinn áður en ökumenn leggja af stað.

Verstappen tryggði sér ráspól í tímatökunum í gær með nokkrum yfirburðum. Hann kom í mark á 1:23,778, tæplega hálfri sekúndu hraðari en George Russell á Marcedes sem kom í mark á næst besta tímanum.

Verstappen mun því ræsa fremstur í katarska kappakstrinum á morgun, Russell annar og Lewis Hamilton á Mercedes þriðji. Liðsfélagi Verstappens á Red Bull, Sergio Perez, komst hins vegar ekki í gegnum annan hluta tímatökunnar og ræsir því þrettándi.

Heimsmeistarinn Verstappen er með gríðarlega yfirburði í heimsmeistarakeppni ökumanna og er hann með 177 stiga forskot á liðsfélaga sinn fyrir kappakstur helgarinnar. Perez er sá eini sem á enn tölfræðilegan möguleika á að ná Verstappen, en Hollendingurinn þarf aðeins þrjú stig í viðbót til að tryggja sér sinn þriðja heimsmeistaratitil í röð.

Það þýðir að Verstappen getur tryggt sér heimsmeistaratitilinn strax í dag, þrátt fyrir að keppnin sjálf sé ekki fyrr en á morgun. Það er vegna þess að í dag fer fram sprettkeppni þar sem hægt er að næla sér í allt að átta stig. 

Takist Verstappen að næla sér í þremur stigum meira en Perez í sprettkeppninni í dag er Hollendingurinn því heimsmeistari þriðja árið í röð og verður um leið sá fyrsti í sögunni til að tryggja sér heimsmeistaratitil í sprettkeppni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×