Formúla 1

Biðst afsökunar á gríninu um Schumacher og kennir ferðaþreytu um það

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Michael Schumacher lenti í skíðaslysi í desember 2013 og hefur ekki sést opinberlega síðan þá.
Michael Schumacher lenti í skíðaslysi í desember 2013 og hefur ekki sést opinberlega síðan þá. getty/Mark Thompson

Spænski Formúlu 1 sérfræðingurinn sem gerði grín að Michael Schumacher í beinni útsendingu hefur beðist afsökunar á ummælum sínum.

„Leyfum Michael að skjálfa, nei ekki Michael því hann getur ekki skolfið,“ sagði Antonio Lobato í beinni útsendingu frá japanska kappakstrinum um helgina í spænsku sjónvarpi.

Schumacher lenti í alvarlegu skíðaslysi fyrir áratug og hefur ekki sést opinberlega síðan þá. Lítið er vitað um ástand hans en litlar sem engar líkur eru á að hann nái aftur heilsu.

Lobato var harðlega gagnrýndur fyrir ummæli sín og hvattur til að segja af sér. Hann birti loks myndband á Twitter þar sem hann baðst afsökunar á ummælum sínum og kom með ansi sérstaka skýringu á þeim.

„Ég gerði mistök án þess að meina neitt illt með því. Þetta var sannkallaður klaufaskapur, vanhæfni til að tjá mig rétt, kannski vegna ferðaþreytu sem er ekki afsökunar fyrir þau ykkar sem sáu þetta ekki,“ sagði Lobato.

„Ég gekk of langt og sagði eitthvað sem ég átti ekki að segja. Þetta átti ekki að vera grín. Ég ætlaði ekki að gera grín að Michael Schumacher. Ég held að allir sem þekkja mig og vita hvernig ég er viti fullkomlega að ég myndi aldrei grínast með neitt svona. Aldrei en þetta var klaufalegt.“

Schumacher varð sjö sinnum heimsmeistari á sínum tíma og er talinn með bestu ökumönnum allra tíma.


Tengdar fréttir

„Ekki ná­lægt því að vera sá Michael sem við öll þekktum“

Johnny Her­bert, náinn vinur og fyrrum liðs­fé­lagi For­múlu 1 goð­sagnarinnar Michael Schumacher, segir aldrei neinar já­kvæðar fréttir berast af líðan þýsku goð­sagnarinnar sem lenti í al­var­legu skíða­slysi árið 2013 og lítið hefur spurst til síðan þá. Á­standið hafi skiljan­lega tekið sinn toll á yngri bróðir Michaels, Ralf Schumacher.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×