Innlent

„Þeir skjóta sem þora“ segir Kristján um mögu­lega stjórn­valds­sekt

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kristján Loftsson, eigandi Hvals hf. Nítján langreyðar hafa veiðst það sem af er veiðitímabilinu.
Kristján Loftsson, eigandi Hvals hf. Nítján langreyðar hafa veiðst það sem af er veiðitímabilinu. Vísir/Vilhelm

Matvælastofnun skoðar nú að leggja stjórnvaldssekt á Hval hf. vegna fráviks við veiðar Hvals 8. „Þeir skjóta sem þora,“ segir Kristján Loftsson, eigandi Hvals, um mögulega sektargerð.

Frá þessu greinir Morgunblaðið.

Veiðar Hvals 8 voru stöðvaðar á dögunum eftir að veiðimenn hæfðu langreyð „utan tilgreinds marksvæðiðs“ með þeim afleiðingum að dauðastríð dýrsins varð lengra en ella. Um það bil 30 mínútur liðu þar til dýrið var skotið aftur eftir misheppnaða fyrstu tilraun.

Veiðar Hvals hf. hafa verið mikið í fréttum frá því þær hófust að nýju en um helgina var greint frá því að nær fullvaxta kálfur hefði verið dreginn úr langreyði sem var drepin á föstudag. Í nýrri reglugerð matvælaráðherra um veiðarnar segir að ekki megi skjóta hvali sem kálfar fylgja. Ekki er fjallað um kefldar kýr.

„Það er ekk­ert nýtt við það að kelfd­ar hvalkýr veiðist líkt og gerðist í síðustu viku, það ger­ist á hverri ein­ustu vertíð. Þetta verður aldrei öðru­vísi ef menn ætla að stunda hval­veiðar,“ seg­ir Kristján í samtali við Morgunblaðið.

Kristján segir um 40 þúsund langreyðar við landið og helmingur þeirra væntanlega kýr. Það hafi ekki nokkur áhrif á viðkomu stofnsins þótt nokkrar kefldar kýr séu drepnar. Þá hafi fóstrin verið rannsökuð af sérfræðingum og þannig nýst í vísindaskyni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×