Innlent

Vegurinn um Mjóa­fjarðar­heiði lokaður vegna vatna­skemmda

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Lilja Alfreðsdóttir ráðherra birti þessa mynd frá heimsókn ríkisstjórnarinnar í Mjóafjörð þann 1. september síðastliðinn.
Lilja Alfreðsdóttir ráðherra birti þessa mynd frá heimsókn ríkisstjórnarinnar í Mjóafjörð þann 1. september síðastliðinn. Lilja Dögg

Lokað er fyrir bílaumferð um Mjóafjarðarheiði sem liggur frá hringveginum sunnan við Egilsstöðum og inn í Mjóafjörð. Bóndi í firðinum segir vatn hafa grafið veginn í sundur á tveimur stöðum hið minnsta.

Hættustig almannavarna er á Austurlandi vegna mikillar úrkomu. Svæði sem inniheldur á fjórða tug húsa á Seyðisfirði var rýmt í gær. Áfram hellirignir.

Sigfús Vilhjálmsson, bóndi á Brekku í Mjóafirði, segir í samtali við Austurfrétt að heimafólk í firðinum sé afslappað þrátt fyrir lokun. Á meðan Mjóafjarðarheiði er lokuð kemst enginn akandi til eða frá Mjóafirði.

Aurskriður urðu á Seyðisfirði í desember fyrir tæpum þremur árum. Nú er hættustig um miðjan september. Sigfús segir miklar haustrigningar í september ekki óþekktar.

„Pabbi gamli átti afmæli 20. september og ég man ekki betur en það hafi verið einhver svona djöfullinn í gangi oftar en ekki á þeim tíma. Ekki bara rigningar heldur krapahríð og allur fjandinn þannig að þetta er ekki merkilegt svona til lengri tíma litið,“ segir Sigfús við Austurfrétt.

„Svona nokkuð getur komið á öllum árstíma hvar sem er. Mér var sagt frá því að árið 1946 hafi grafið undan íbúðarhúsi hér hinu megin við fjörðinn vegna rigninga. Kerlingin á bænum fór niður í kjallara og leysti kýrnar frá til að bjarga þeim og þetta var um miðjan ágústmánuð.“


Tengdar fréttir

Engar til­kynningar um skriðu­föll en á­fram mikil rigning

Engar fréttir hafa borist af skriðuföllum á Seyðisfirði þar sem hættustig Almannavarna er í gildi. Þó er vel fylgst með gangi mála þar sem áfram er búist við mikilli rigningu. Rýmingum verður ekki aflétt í dag.

Grípa til rýminga á Seyðisfirði

Ákveðið hefur að rýma á fjórða tug húsa á Seyðisfirði vegna svakalegrar úrkomuspár næstu tvo sólarhringa. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Almannavörnum. Að stærstum hluta er um atvinnuhúsnæði að ræða.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×