Sport

Risarnir frá New York unnu sinn stærsta endurkomusigur í sögunni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
New York Giants vann sinn stærsta endurkomusigur í sögunni í nótt.
New York Giants vann sinn stærsta endurkomusigur í sögunni í nótt. Michael Owens/Getty Images

New York Giants vann ótrúlegan 28-31 sigur er liðið heimsótti Arizona Cardinals í NFL-deildinni í amerískum fótbolta í nótt.

Gestirnir frá New York lentu heldur betur í kröppum dansi gegn Arizona Cardinals þar sem heimamenn leiddu 7-0 eftir fyrsta leikhluta og 20-0 þegar flautað var til hálfleiks.

Gestirnir minnkuðu muninn snemma í þriðja leikhluta, en mest náðu heimamenn 21 stigs forskoti þegar liðið komst í 28-7 þegar þriðji leikhluti var um það bil hálfnaður.

Risarnir frá New York gáfust þó ekki upp og minnkuðu muninn á ný stuttu fyrir lok þriðja leikhluta og staðan því 28-14 þegar komið var að lokaleikhlutanum. Þar sýndu Risarnir úr hverju þeir eru gerðir og skoruðu tvö snertimörk til að jafna leikinn áður en Graham Gano skoraði vallarmark þegar aðeins 23 sekúndur voru eftir af leiknum.

Það voru því gestirnir sem fögnuðu ótrúlegum sigri, 28-31, og þeirra stærsti endurkomusigur í sögunni því staðreynd. New York Giants hefur nú unnið annan af fyrstu tveimur leikjum tímabilsins, en Arizona Cardinals er enn í leit að sínum fyrsta sigri.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×