Erlent

Telja sig hafa komist að því hvers vegna heila­frumurnar deyja

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Uppgötvunin þykir lofa góðu en mikil rannsóknarvinna er framundan.
Uppgötvunin þykir lofa góðu en mikil rannsóknarvinna er framundan. Getty

Vísindamenn í Bretlandi og Belgíu telja sig hafa komist að því af hverju heilafrumur deyja í Alzheimersjúklingum. Dauði heilafrumanna hefur verið ráðgáta í marga áratugi en vonir eru bundnar við að uppgötvunin greiði fyrir þróun nýrra lyfja við sjúkdómnum.

Niðurstöður umræddrar rannsóknar hafa verið birtar í tímaritinu Science.

Það er frumudauðinn sem veldur einkennum Alzheimers, til að mynda minnistapi, en vísindamennirnir telja sig nú vita að uppsöfnun óeðlilegra prótína leiði til nokkurs konar sjálfsvígs frumanna, kallað „necroptosis“ á ensku.

Það hefur löngum verið talið víst að Alzheimersjúkdómurinn tengist uppsöfnun amyloid-útfellinga og tau-prótína í heilanum. 

Vísindamennirnir við Dementia Research Institute við University College London og KU Leuven í Belgíu telja nú að ferlið sé þannig að útfellingar fari að myndast á milli heilafrumanna, sem leiði til bólgusvars. Bólgusvarið leiði til þess að frumurnar bregðast við með því að umbreytast. Þegar svokallaðar tau-flækjur fari að myndast bregðist frumurnar við með því að framleiða sameindina MEG3, sem leiði til frumudauða.

Umrætt ferli, það er að segja þetta „sjálfsvíg“ frumanna, er ein leið líkamans til að losa sig við óæskilegar frumur þegar nýjar myndast.

Teyminu tókst að koma í veg fyrir frumudauða með því að koma í veg fyrir framleiðslu MEG3.

Bart De Strooper, prófessor við Dementia Research Institute, segir um að ræða afar áhugaverða og mikilvæga uppgötvun. Menn hafi lengi velt því fyrir sér hvers vegna og hvernig heilafrumur deyji í Alzheimersjúklingum og nú sé svarið fundið.

Hann segist vonast til þess að uppgötvunin muni leiða til þróunnar nýrra og áhrifaríkra lyfja gegn sjúkdómnum en margra ára rannsóknarvinna sé framundan áður en það geti orðið.

Hér má finna umfjöllun BBC um málið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×