Formúla 1

Goðsögnin úti­lokar ekki endur­komu í For­múlu 1

Aron Guðmundsson skrifar
Fjórfaldi Formúlu 1 heimsmeistarinn Sebastian Vettel
Fjórfaldi Formúlu 1 heimsmeistarinn Sebastian Vettel Vísir/Getty

Sebastian Vet­tel, fjór­faldur heims­meistari öku­manna í For­múlu 1 og goð­sögn í sögu mótaraðarinnar, úti­lokar ekki mögu­leikann á endur­komu í For­múlu 1.

Frá þessu greindi Vet­tel í við­tali við Martin Brund­le hjá Sky Sports. Þessi magnaði þýski öku­maður lét gott heita af For­múlu 1 ferlinum, í bili hið minnsta, eftir síðasta tíma­bil.

Í við­talinu við Brund­le segist Vet­tel hafa haldið sér í keppnisstandi líkamlega séð.

„Bara af því að ég vil vera í þessu standi, ég er ekki að gera þetta til að geta stokkið inn ef ein­hver dettur út.“

Snýr Vettel aftur í Formúlu 1? Það myndi allavegana gleðja marga. Hér er hann eftir síðustu keppni sína, í bili hið minnsta, í Abu Dhabi í fyrra.Vísir/Getty

Vet­tel er að­eins 36 ára gamall, tveimur árum yngri en Lewis Hamilton, öku­maður Mercedes og sex árum yngri en Fernando Alon­so, öku­maður Aston Martin og ætti því að eiga nóg eftir í tankinum.

Í gegnum sögu For­múlu 1 hafa magnaðir öku­menn bundið enda á feril sinn í For­múlu 1 en svo snúið aftur. Það var meðal annars raunin með Nigel Man­sell, Fernando Alon­so, Michael Schumacher og Kimi Raik­konen.

Vet­tel segist ekki geta úti­lokað endur­komu í móta­röðina.

„Ég get ekki svarað þessari spurningu neitandi vegna þess að maður veit aldrei,“ svaraði Vet­tel. „Ef þú hefðir spurt þessa öku­menn, sem sneru aftur, að þessari spurningu þá hefðu ein­hverjir af þeim svarað henni neitandi. Aðrir hefði svarað henni þannig að þeir vita ekki hvað fram­tíðin ber í skauti sér. En á endanum sneru þeir allir aftur svo ég get ekki úti­lokað þann mögu­leika fyrir mig.“

Vet­tel er einn sigur­sælasti öku­maður sögunnar í For­múlu 1, en hann vann fjóra heims­meistara­titla í röð árin 2010 til 2013 þegar hann ók fyrir Red Bull. Árið 2010 varð hann yngsti heims­meistari sögunnar í For­múlu 1, þá að­eins 23 ára og 134 daga gamall.

Að­eins Lewis Hamilton, Michael Schumacher og Juan Manuel Fangio hafa fagnað heims­meistara­titli öku­manna oftar en Vet­tel. Þjóð­verjinn hefur fagnað sigri í 53 keppnum en að­eins Hamilton og Schumacher hafa gert það oftar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×