Innlent

Losun gróðurhúsalofts rúmum sjö prósentum hærri

Jón Þór Stefánsson skrifar
Í bráðabirgðartölum Hagstofunnar er fjallað um losun frá flugrekstri, heimilisbílum, og frá iðnaði.
Í bráðabirgðartölum Hagstofunnar er fjallað um losun frá flugrekstri, heimilisbílum, og frá iðnaði. Vísir/Vilhelm

Losun gróðurhúsalofts frá hagkerfi Íslands var rúmar þrjár milljónir tonna á fyrra helmingi þessa árs. Það er rúmlega sjö prósent aukning frá því í fyrra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hagstofunni, en tölurnar eru byggðar á bráðabirgðarreikningum.

Á fyrsta ársfjórðungi þessa árs var aukningin 15.1 prósent frá fyrra ári en á öðrum árfjórðungi var losunin óbreytt.

Fram kemur að aukningin hafi stafað af aukinni losun frá iðnaði og flugrekstri. Frá iðnaði jókst losun um 95 kílótonn á fyrsta ársfjórðungi. Frá flugrekstri jókst losunin um 105 kílótonn á sama ársfjórðungi.

Losun frá rekstri heimilisbíla hefur þó verið lægri það sem af er ári miðað við síðasta ár. 

Innflutningur eldsneytis bendir til þess að losun hafi verið heldur meiri fyrstu tvo mánuði ársins á meðan að kaup erlendra aðila var takmörkuð.

Skoðunartölur, vegatalningar og sala á eldsneytisstöðvum bendir til þessa að losun frá rekstri heimila sé um átta prósent lægri á öðrum ársfjórðungi.

Líkt og áður segir er um að ræða bráðabirgðarreikninga fyrir losun gróðurhúsalofts frá hagkerfi Íslands. Þær eru áætlaðar út frá inn- og útflutningstölum, rekstrartölum, atvinnuskráningu og öðrum hagtölum sem nýtast við að meta virkni fyrirtækja. Virknin er síðan sett í samhengi við staðfesta losun fyrri ára til þess áætla losun á mánuði og á líðandi ári.

Fréttin hefur verið uppfærð með nýjum tölum frá Hagstofunni sem hefur leiðrétt rangan útreikning sinn. Áður sagði að losun á fyrri helmingi ársins hefði verið tæplega tólf prósent.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×