Innlent

Guðni vísaði til slagara Bríetar við setningu Alþingis

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, þegar hann mætti til þingsetningar í dag. 
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, þegar hann mætti til þingsetningar í dag.  Vísir/Hulda

Guðni Th. Jóhannes­son, for­seti Ís­lands, lagði á­herslu á breytingar á ís­lensku sam­fé­lagi og fjöl­breyti­leika þess við setningu Al­þingis í dag. Hann sagði að í stjórnar­skrá mætti koma fram að ís­lenska sé þjóð­tunga Ís­lendinga og opin­bert mál á Ís­landi.

„Fram undan er anna­samur tími að vanda, að mörgu að hyggja þegar horft er fram á veg. Þennan þing­vetur og allt næsta ár er einnig margs að minnast ef horft er um öxl,“ sagði Guðni.

Hann rifjaði upp að árið 2024 verði rétt þúsund ár liðin frá því að merk þing­ræða var flutt, ef marka má Heims­kringlu Snorra Sturlu­sonar þegar Einar Þver­æingur mælti þá gegn þeirri ósk Ólafs Helga Noregs­konungs að fá Gríms­ey til eignar.

Klippa: Ávarpaði Alþingi við setningu 154. löggjafarþings

„Fyrir þúsund árum urðu einnig þau tíðindi að Þor­geir Hávars­son safnaðist til feðra sinna, megi trúa Fóst­bræðra sögu. „Al­dregi skyldi góður drein­gur láta þá skömm af sér spyrjast að kjósa frið ef ó­friður var í boði.“ Þetta er Þór­elfur móðir hans látin segja í Gerplu, snilldar­legu verki Hall­dórs Lax­ness í anda forn­sagnanna. Aumri að­dáun and­hetjunnar Þor­geirs á valdi má halda á lofti nú um stundir þegar ráða­menn í Rúss­landi reyna að sýna mátt sinn og megin með því að ráðast með of­beldi inn í grann­ríki.“

Ís­land ger­breyst

Guðni rifjaði upp að 150 ár verði liðin þann 5. janúar frá því Kristján IX. Dana­konungur stað­festi stjórnar­skrá um hin sér­stak­legu mál­efni Ís­lands, þau grunn­lög sem Ís­lendingum voru færð þegar landið til­heyrði Dana­veldi.

Þá verði 80 ár liðin þann 17. júní á næsta ári frá stofnun lýð­veldis á Ís­landi. Þá hafi ný stjórnar­skrá verið sam­þykkt sem Guðni rifjar upp að hafi á­fram borið þess skýr merki að eiga rætur í konungs­ríki og vera samin fyrir konungs­ríki. Þá nefndi hann að 2024 verði 30 ár síðan EES samningurinn tók gildi á Ís­landi.

„Satt er það líka að síðustu ára­tugi hefur Ís­land ger­breyst að mörgu leyti. Nú er stór hluti íbúa landsins af er­lendu bergi brotinn. Fólk sækir hingað vinnu eða skjól og sé vel að verki staðið verður sam­fé­lagið fjöl­breyttara og fal­legra, öflugra og fram­sæknara. Um leið þurfum við að tryggja að eining ríki um grunn­stoðir okkar, mál­frelsi og at­hafna­frelsi hvers og eins, réttar­ríki og sam­hjálp– sam­fé­lag þar sem fólk getur sýnt hvað í því býr, sjálfu sér og öðrum til heilla, en fær líka þá að­stoð sem þörf krefur hverju sinni.“

Fleira sem sameini en sundri

Sam­tímis sagði Guðni að megi efla þá þætti í menningu okkar og mann­lífi sem geta sam­einað flesta íbúa landsins. Ís­lendingar eigi tungu­mál sem geri okkur kleyft að skilja það sem skráð var á bók­fell fyrir nær þúsund árum.

„Öll getum við lagt okkar af mörkum og sjálf­sagt er að ríkis­valdið sé í farar­broddi. Í stjórnar­skrá mætti vera kveðið á um það sem segir nú þegar í lögum, að ís­lenska er þjóð­tunga Ís­lendinga og opin­bert mál á Ís­landi. Á­lyktun þess efnis gæti jafn­vel þótt við hæfi á af­mælis­árinu fram undan. Best væri líka að opin­ber fyrir­tæki hefðu ís­lenskt mál ætíð í for­grunni, á flug­völlum, hjá stofnunum og hvarvetna. Lítt stoðar að kvarta undan því að al­þjóða­málið enska sæki á ef við sjálf gerum því ó­þarf­lega hátt undir höfði en látum okkar eigin tungu liggja í láginni.“

Mikil­vægt sé að Ís­lendingar geri þeim sem hingað flytji betur kleift að læra ís­lensku, bjóði fleiri nám­skeið og náms­efni, sýni jafn­vel aukna lipurð og að­stoð á starfs­vett­vangi.

„Nú við upp­haf þings lýsi ég því þeirri von að ykkur megi auðnast að vinna vel í þágu lands og þjóðar. Vissu­lega á þingið að vera vett­vangur á­greinings og á­taka ef svo ber undir. Vissu­lega getur verið að ein­hverjum þyki orð Bríetar í laginu um Esjuna eiga vel við, að við förum „eftir ein­breiðum vegi sem liggur í öfuga átt“ og „allt er sí­endur­tekið, samt er svo mikið ó­sagt“. 

Engu að síður má vona að góður andi ríki hér, að virðing verði borin fyrir ó­líkum sjónar­miðum, að þing­menn geti notið ljúfra stunda milli stríða, slegið á létta strengi og fundið að þrátt fyrir allt er það mun fleira sem sam­einar okkur í þessu landi en það sem sundrar okkur.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×