Innlent

Á­ætlaður kostnaður við sátt­málann nú 300 milljarðar í stað 160

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Bjarni segir framtíðaráform þurfa að byggjast á traustum og raunhæfum forsendum.
Bjarni segir framtíðaráform þurfa að byggjast á traustum og raunhæfum forsendum. Vísir/Vilhelm

Nýjustu sviðsmyndir sem kynntar hafa verið aðilum samgöngusáttmálans svokallaða sýna að áætlaður kostnaður vegna hans stendur nú í 300 milljörðum í stað 160 milljarða upphaflega.

Þetta segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í aðsendri grein í Morgunblaðinu.

„Frá sjón­ar­hóli rík­is­ins hef­ur verk­efnið því vaxið úr því að snú­ast um að út­vega að nú­v­irði 80 millj­arða með flýti- og um­ferðar­gjöld­um, eða sér­stök­um fram­lög­um, yfir í að gera þarf ráð fyr­ir öðrum 140 millj­örðum því til viðbót­ar vegna vanáætl­un­ar. Þá eru ótald­ir þeir 40 millj­arðar sem óskað er eft­ir frá rík­inu í rekst­ur al­menn­ings­sam­gangna. Sam­an­lagt er því um að ræða 260 millj­arða,“ segir Bjarni meðal annars í greininni.

Bjarni hnýtir meðal annars í Dag B. Eggertsson borgarstjóra og fleiri, sem hafi sagt að þrátt fyrir fjárhagslegar áskoranir væru aðrar forsendur sáttmálans þær sömu og áður.

Fjármálaráðherra segir upphaflega mynd hafa verið einfalda en eftir því sem verkefninu hafi undið fram hafi komið í ljós að upphaflegar áætlanir hafi verið stórkostlega vanmetnar.

„Vanáætl­un­in virðist eiga við um nær alla þætti sátt­mál­ans. Stofn­vega­fram­kvæmd­ir hafa verið veru­lega vanáætlaðar, sér­stak­lega hug­mynd­ir um stokka. Hér verða aðeins tek­in örfá dæmi. Gert hafði verið ráð fyr­ir að Arn­ar­nes­veg­ur kostaði 2,2 millj­arða en ný­lega var samið við verk­taka um fram­kvæmd upp á 7,2 millj­arða. Verðbætt fram­kvæmda­áætl­un sátt­mál­ans ger­ir ráð fyr­ir þriggja millj­arða fram­kvæmd vegna Sæ­braut­ar­stokks en frumdrög hljóða nú upp á 27 millj­arða. Þetta er ní­föld­un. Fram­kvæmda­hluti borg­ar­línu er und­ir sömu sök seld­ur. Nú má gera ráð fyr­ir rúm­lega 126 millj­arða fram­kvæmd í stað 67 millj­arða,“ segir Bjarni.

Hann segir að hann, líkt og aðrir íbúar höfuðborgarsvæðisins, hafi lengi alið þá von í brjósti að hægt yrði að ráðast í stórfellda uppbyggingu samgangna á svæðinu og að samgöngusáttmálanum hafi verið ætlað að rjúfa þá kyrrstöðu sem hefði ríkt.

Það sé hins vegar engum greiði gerður með því að leggja fram háleit markmið ef fjárhagslegar forsendur stæðust ekki. Þess vegna hefði hann lagt áherslu á að sáttmálinn yrði endurskoðaður.

„Framtíðaráform verða að byggj­ast á traust­um, raun­hæf­um for­send­um. Stöðunni verður tæp­lega lýst þannig að hún feli aðeins í sér „fjár­hags­leg­ar áskor­an­ir“ og eitt er víst að umræða um þessa stöðu hef­ur ekk­ert með fylgisk­ann­an­ir að gera. Hún snýst um raun­sæi, virðingu fyr­ir mik­il­vægi verk­efn­is­ins og pen­ing­um skatt­greiðenda,“ segir Bjarni.

„Það gild­ir jafnt í stór­um verk­efn­um sem smá­um að gott er að byrja á því að svara spurn­ing­unni hvaðan pen­ing­arn­ir eigi að koma? Ella er hætta á að vand­inn vaxi þar til maður er týnd­ur djúpt inni í miðjum skógi ófjár­magnaðra hug­mynda og rat­ar ekki aft­ur heim.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×