Innlent

Kvik­­mynda­­fram­­leið­endur vona að sam­­staða náist á Al­þingi um veiði­bann

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hvalveiðarnar í haust munu mögulega hafa áhrif á kvikmyndaiðnaðinn hérlendis vegna andstöðu Hollywood.
Hvalveiðarnar í haust munu mögulega hafa áhrif á kvikmyndaiðnaðinn hérlendis vegna andstöðu Hollywood. Vísir/Egill

Stjórn Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda segist harma ákvörðun matvælaráðherra um að heimila hvalveiðar í haust og vonast til þess að samstaða náist á Alþingi um að banna veiðarnar til frambúðar.

Frá þessu er greint í tilkynningu frá SÍK.

Stjórnin segist hafa áhyggjur af afleiðingum ákvörðunarinnar og þeim orðsporshnekkjum sem Ísland hefur og mun verða fyrir ef veiðarnar halda áfram.

Eins og kunnugt er hefur nokkur fjöldi framleiðenda, leikstjóra og leikara í Hollywood hótað því að hætta að koma hingað til lands með kvikmyndverkefni eða taka þátt í kvikmyndaverkefnum sem hér eru vinnslu.

„Íslenskur kvikmyndaiðnaður hefur verið í miklum vexti undanfarin ár og er um þessar mundir að festa sig í sessi sem ákjósanlegur áfangastaður fyrir hin ýmsu framleiðsluverkefni. Í þessu samhengi má nefna að velta kvikmyndaiðnaðar nam um 25 milljörðum á síðast liðnu ári, þar af er stór hluti útflutningstekjur. Afstaða alþjóðlega kvikmyndaiðnaðarins til hvalveiða vegur þungt hvort uppbygging síðustu ára haldi áfram eða að Ísland verði sniðgengið. Íslensk stjórnvöld hafa á undanförnum árum lagt mikinn metnað í að efla samkeppnishæfni íslensks kvikmyndaiðnaðar,“ segir í tilkynningunni.

Stjórn SÍK hvetur íslensk stjórnvöld til að horfa til heildarhagsmuna íslensks samfélags og segist vonast eftir að skjót samstaða myndist meðal stjórnmálaflokkanna um bann.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×