Erlent

Fyrr­verandi ritari Verka­manna­flokksins lést á Ís­landi í gær

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Haworth var 75 ára þegar hann lést.
Haworth var 75 ára þegar hann lést. Breska þingið

Lávarðurinn Alan Haworth, fyrrverandi ritari breska Verkamannaflokksins, lést á ferðalagi til Íslands í gær. Hann var 75 ára.

Frá þessu greinir Independent en andlát Haworth var staðfest af Verkamannaflokknum.

Samkvæmt frétt Independent voru Haworth og eiginkona hans Maggie Rae á siglingu til Grænlands og Íslands þegar Haworth veiktist skyndilega í síðustu viku. Hann var fluttur á Landspítalann, þar sem hann var greindur með lungnabólgu.

Hann er sagður hafa látist af völdum hjartaáfalls.

Rae lofar læknana og hjúkrunarfræðingana sem komu að umönnun Haworth.

„Ég er augljóslega í hjartasorg en ég get ekki hrósað íslensku heilbrigðisþjónustunni nóg né þeim læknum og hjúkrunarfræðingum sem önnuðust um hann,“ segir hún um umönnun eiginmanns síns.

Þau hafi sýnt fagmennsku og umhyggju.

Keir Starmer, leiðtogi Verkmannaflokksins, hefur tjáð sig um andlát Haworth og segir hann hafa unnið ötullega að því að bæta kjör vinnandi fólks. Þá hafi hann átt stóran þátt í glæstu gengi Verkamannaflokksins í kosningunum 1997.

„Alan var einn af mínum nánustu vinum; dásamlegur, hlýr og snjall félagi,“ segir Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra og leiðtogi Verkamannaflokksins. Haworth hefði ávallt verið trúr flokknum og látið til sín taka.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×