Veður

Tals­vert úr­helli suð­vestan­lands

Árni Sæberg skrifar
Regnhlíf gæti komið að góðum notum í dag.
Regnhlíf gæti komið að góðum notum í dag. Vísir/Vilhelm

Lægð á hreyfingu norðureftir Grænlandssundi dregur með sér regnsvæði austur yfir landið í dag. Því verður rigning eða súld í öllum landshlutum, um tíma talsvert úrhelli suðvestanlands.

Þetta segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands. Þar segir jafnframt að mjög hlýr loftmassi sé yfir landinu og hiti sums staðar kominn í tuttugu stig á Norðurlandi strax í morgunsárið.

Á morgun, sunnudag, verði skilin komin austur fyrir land og birti víða til. Fremur hæg suðvestlæg átt muni leika um landið, sem beini dálitlu regnsvæði að suðvesturströndinni seint annað kvöld. Enn ágætis hiti, þó ögn svalara en í dag.

Á mánudag sé búist við að vindur snúist í norðlæga átt, en þá kólni heldur fyrir norðan. Búast megi við vætu í flestum landshlutum, mest á Suðurlandi.

Veðurhorfur næstu daga:

Á sunnudag:

Vestan og suðvestan 3-10 m/s. Skýjað með köflum og sums staðar dálitlir skúrir, en fer að rigna við suðvesturströndina seint um kvöldið. Hiti 11 til 18 stig, hlýjast á Suðausturlandi.

Á mánudag:

Norðlæg eða breytileg átt, 3-10 m/s og dálítil rigning með köflum, en samfelld rigning um tíma á Suðurlandi. Hiti 10 til 16 stig.

Á þriðjudag:

Hæg breytileg átt og bjart með köflum, en smá skúrir suðaustantil. Hiti 9 til 17 stig, hlýjast syðra.

Á miðvikudag og fimmtudag:

Hæg suðlæg átt og víða smá skúrir, en þurrt að kalla norðaustanlands. Milt veður.

Á föstudag:

Útlit fyrir vaxandi sunnanátt með rigningu vestantil, en hægara og þurrt eystra. Hlýnandi veður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×