Íslenski boltinn

Ritar opið bréf til Vöndu: „Sem rýtingur í brjóst okkar stelpna“

Aron Guðmundsson skrifar
Lið KF/Dalvíkur ásamt Friðjóni Árna þjálfara liðsins og Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ
Lið KF/Dalvíkur ásamt Friðjóni Árna þjálfara liðsins og Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ Samsett mynd

Frið­jón Árni Sigur­vins­son, þjálfari fjórða flokks kvenna KF/Dal­víkur í fót­bolta, ritar opið bréf til Vöndu Sigur­geirs­dóttur, formanns KSÍ, og birtir á sam­fé­lags­miðlum. Greinir Frið­jón Árni þar frá raunum liðsins sem fær ekki, sökum reglu­gerðar KSÍ, að taka þátt í úr­slita­keppni Ís­lands­mótsins. Reglu­gerðin sé sem rýtingur í brjóst stelpnanna sem sitji eftir niður­brotnar.

Friðjón Árni ritar þetta opna bréf til Vöndu þar sem að hann segir hana of upptekna við önnur mál þessa dagana til þess að svara 4. flokks þjálfara út á landi, hvorki í síma né í gegnum tölvu­póst. 

Fjórði flokkur kvenna í fótbolta hjá KF/Dal­vík skráði eitt lið til leiks á Ís­lands­mótið í sumar. Liðið var skráð sem B-lið þar sem forráðamenn liðsins töldu getu­bilið vera mikið í liðinu og að sama skapi sé fjöldi leikmanna ekki mikill hjá fjórða flokki. 

„Einnig vildum að þær fengu verk­efni við hæfi. Liðið kom svo öllum á ó­vart og er búið að vera frá­bært í sumar og vann sinn riðill á Ís­lands­mótinu. Við fáum svo þau skila­boð að vegna þess að við erum ekki með lið í A-liða keppni fær liðið ekki að taka þátt í úr­slita­keppninni sem stelpurnar stefndu á í allt sumar.“

Í reglu­gerðum KSÍ er það skýrt að slíkt að B-lið geti ekki tekið þátt í úslitakeppni. 

„Mér finnst hins vegar sú regla og reglu­gerð barn síns tíma þar sem þarna er verið að úti­loka minni fé­lög frá því að eiga séns á glæstum árangri. Með þessu má ætla að það sé yfir­lýst stefna að stærri fé­lögin eigi ein að eiga mögu­leika á því að verða Ís­lands­meistarar. Er eðli­legt að einungis lið frá Breiða­blik, Stjörnunni/Álfta­nes, FH/ÍH, KA eða öðrum fjöl­mennum fé­lögum geti hampað Ís­lands­meistara­titlum? Og að fjöldi iðk­enda hafi þar úr­slita­á­hrif?“ 

„Sem rýtingur í brjóst okkar stelpna“

Friðjón Árni spyr hvort að KSÍ sé virki­lega endan­lega orðið að höfuð­borgar­sam­tökum. 

„Sem skeytir lítið um fé­lögin úti á landi sem eru að berjast í því að halda úti liðum í öllum flokkum af báðum kynjum og finnst eðli­legast að fé­lögin sem eru með flesta iðk­endur standi framar öðrum? Er það í anda KSÍ að fá­mennum liðum eins og KF/Dal­vík og fleirum sé gert það ó­mögu­legt að sigra og ná eftir­minni­legum árangri og upp­skera eftir erfiði vinnu sinnar?

Þessi stefna og reglu­gerð er sem rýtingur í brjóst okkar stelpna og gerir lítið úr þeirri metnaðar­fullu upp­byggingu sem á sér nú stað í kvenna­boltanum hér út með Eyja­firði. KSÍ þarf að gera betur svo fólk í minni byggðum á lands­byggðinni trúi því að allir eigi mögu­leika á því að sigra. Það er nógu erfitt að halda stelpum á þessum aldri inn í fót­bolta í þessum litlu sveitar­fé­lögum hvað þá þegar þær fá svona skell að öll vinnan og mark­miðum sé sópað út af borðinu út af úr­eltri reglu­gerð hjá KSÍ.“ 

Mölbrotin reglugerð

Hann veltir því fyrir sér til hvers KF/Dalvík sé þá yfir höfuð að taka þátt í Ís­lands­mótinu, ef liðið eigi síðan ekki mögu­leika á árangri? 

„Það gjald­fellir líka al­gjör­lega mótið ef lið sem endar í 4.-8. sæti í riðli, fær sæti í úr­slita­keppni bara af því að það er A-lið frá þeim í keppni. Að sama skapi get ég ekki í­myndað mér að það sé ein­hver vilji frá þeim fé­lögum til að taka þátt í svo­leiðis leik, að leika í úr­slita­keppni án þess að hafa náð árangri. Það er ekki í anda keppnis­í­þrótta.“

Í sömu reglu­gerð sé minnst á að Ís­lands­mótið eigi að vera svæðis­skipt og svo sé úr­slita­keppni á milli svæða.

„Þessi reglu­gerð er möl­brotin og al­ger­lega virt að vettugi,“ skrifar Friðjón. „Við höfum farið í sjö úti­leiki í fimm ferðum og keyrt um 900 km í hvert skipti. Við höfum þrisvar farið til Reykja­víkur, einu sinni á Reykja­nesið og í eitt skipti á Hvols­völl. Ég veit ekki hvernig KSÍ sér lands­hlutana en þessir lands­hlutar eru svo sannar­lega ekki á okkar svæði. Kostnaður við þessi ferða­lög er líka gríðar­legur og veltur í heildina á milljónum sem stelpurnar hafa unnið hörðum höndum að safna fyrir.“ 

Það sé mjög skrýtið að fara eftir einni reglu í reglu­gerðinni en hunsa svo aðra. 

„Bara eftir henti­semi KSÍ. Við hefðum jafn­vel skipu­lagt sumarið með allt öðrum hætti hefðum við vitað af þessari reglu og velt fyrir okkur hvort fjár­munum væri ekki verið betur varið við keppni nærri heima­högunum og á móti er­lendis eða eitt­hvað sam­bæri­legt.

Ég hafði sam­band við móta­stjóra KSÍ sem sagði mér að rökin fyrir þessari reglu væru aug­ljós. Ég er greini­lega ekki þannig þenkjandi því rökin eru alls ekki aug­ljós í mínum huga því ekki skrái ég lið með það að mark­miði að rústa mótinu. Það græðir enginn neitt á því, allra síst leik­menn sem ég þjálfa og kenni að bera virðingu fyrir sann­girni og heilindum innan vallar sem utan. Ég trúi því heldur ekki að móta­stjóri geti ekki metið hvert til­felli fyrir sig í stað þess að skýla sér á bak við reglu­verk. Þetta til­felli, sem er 4. fl. lið KF/Dal­víkur er vonandi þannig vaxið að hægt sé að meta okkur í hag.“

Ómögulegt að útskýra þetta fyrir stelpunum

Friðjón Árni segir leik­menn fjórða flokks KF/Dal­víkur þrá að fá já­kvætt svar við þessu bréfi.

„Sem og annað knatt­spyrnu­fólk úr fá­mennum fé­lögum sem heldur kannski enn að lið þeirra geti unnið titla séu liðin nógu góð. Er mögu­leiki að stelpurnar fái að taka þátt í úr­slita­keppni eins og þær eiga skilið og hafa unnið sér inn? Ef það er ekki mögu­legt velti ég því upp hvort KSÍ ætli að greiða ferða­kostnaðinn fyrir okkur þar sem KSÍ braut reglu­gerðina um svæða­skiptinguna vís­vitandi?

Ef stelpurnar fá að taka þátt í úr­slita­keppni og falla úr leik í fyrstu um­ferð er það hluti af leiknum, en að vera meinuð þátt­taka út af reglu­gerð er eitt­hvað sem er ó­mögu­legt að út­skýra fyrir þeim. Ég veit alla­vegana að þær eru niður­brotnar og von­sviknar nú þegar. Hver sem niður­staðan verður mun ég þjálfari liðsins og aðrir að­stand­endur gera allt sem í okkar valdi stendur að hvetja þær til dáða og gæta þess að fót­bolta­á­hugi þeirra og sjálfs­traust bíði ekki hnekki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×