Fótbolti

Ru­bi­a­les ætlar að segja af sér eftir hneykslis­málin

Smári Jökull Jónsson skrifar
Rubiales faðmar hér Alexia Putellas eftir að Spánn tryggði sér heimsmeistaratitilinn í knattspyrnu á sunnudag.  Rubiales fékk mikla gagnrýni fyrir hegðun sína að leik loknum.
Rubiales faðmar hér Alexia Putellas eftir að Spánn tryggði sér heimsmeistaratitilinn í knattspyrnu á sunnudag. Rubiales fékk mikla gagnrýni fyrir hegðun sína að leik loknum. Vísir/Getty

Luis Rubiales mun á morgun segja af sér sem forseti spænska knattspyrnusambandsins. Frá þessu greina spænskir fjölmiðlar nú í kvöld.

Rubiales hefur greint sínum samstarfsmönnum frá ákvörðuninni en afsögn hans kemur í kjölfar þeirra hneykslismála sem upp hafa komið síðustu daga.

Rubiales fékk mikla gagnrýni fyrir að hafa kysst Jennifer Hermoso, leikmann spænska landsliðsins, á munninn þegar sú spænska fékk afhent verðlaun sín fyrir sigur Spánar á heimsmeistaramótinu síðastliðinn sunnudag.

Samkvæmt El Pais tók Rubiales ákvörðunina í dag en hann hafði áður sagst munu sitja áfram sem forseti sambandsins. Eftir fund með nánustu samstarfsfélögum tók Rubiales hins vegar ákvörðun um að segja af sér í stað þess að eiga á hættu að vera rekinn úr embætti.

Afsögnin mun formlega ganga í gegn á morgun þegar stjórn knattspyrnusambandsins hittist á fundi en fundurinn var boðaður til að ræða framtíð Rubiales. Háttsettir aðilar höfðu hvatt til afsagnar hans síðustu daga. Þar á meðal Yolanda Diaz, starfandi varaforseti spænska knattspyrnusambandsins sem og nokkrir ráðherrar. 

Ákvörðun FIFA um að hefja rannsókn á máli Rubiales virðist hafa verið kornið sem fyllti mælinn en tilkynnt var um ákvörðunina í dag.

Rubiales hefur verið forseti spænska sambandsins síðan árið 2018.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×