Viðskipti innlent

Innnes kaupir Djúpalón

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Á myndinni eru Jóhanna Benediktsdóttir og Pétur Þorleifsson eigendur Djúpalóns ásamt Magnúsi Óla Ólafssyni forstjóra Innnes sem stendur í miðjunni.
Á myndinni eru Jóhanna Benediktsdóttir og Pétur Þorleifsson eigendur Djúpalóns ásamt Magnúsi Óla Ólafssyni forstjóra Innnes sem stendur í miðjunni. Innnes

Innnes ehf hefur fest kaup á fyrirtækinu Djúpalóni ehf sem sérhæfir sig í innflutningi, sölu og dreifingu á fjölbreyttu fersku, kældu og frosnu sjávarfangi til fyrirtækja og verslana. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Innnes. Kaupin eru gerð með fyrirvara á samþykki samkeppnisyfirvalda. Engum verður sagt upp við sameininguna.

Þar segir að Djúpalón bjóði upp á allt frá þorski sem veiðist við Íslandsstrendur til framandi tegunda úr öllum heimsins höfum. Með þessum kaupum styrkist Innnes umtalsvert í umsvifum á sjávarfangi sem sé sívaxandi vöruflokkur.

„Við höfum fundið aukna eftirspurn eftir fjölbreyttu fersku, kældu og frosnu sjávarfangi hjá okkar viðskiptavinum, bæði á fyrirtækja- og neytendamarkaði og því eru kaupin á Djúpalóni í takt við okkar markmið að þjónusta okkar viðskiptavini sem allra best. Djúplóni hefur gengið vel á sínum markaði, er með öflugt teymi og við sjáum mikil vaxtartækifæri framundan með þessum kaupum,“ segir Magnús Óli Ólafsson forstjóri Innnes í tilkynningu.

Innnes er ein af stærstu matvöruheildverslunum landsins með úrval matvöru og áfengi ásamt kaffiþjónustu. Fyrirtækið flutti nýverið alla starfsemi sína í nýtt hátæknivöruhús að Korngörðum 3 þar sem sjálfvirkni og skilvirkni í geymslu, tiltekt og dreifingu er í fyrirrúmi. 

„Vöruhúsið býr yfir m.a. nýjustu hátækni í kæli- og frystiklefum sem mun tryggja gæði sjávarfangsins til hins ítrasta,“ segir í tilkynningu. Þar kemur fram að kaupin séu gerð með fyrirvara á samþykki samkeppnisyfirvalda. Þá séu engar breytingar fyrirhugaðar á mannauði í kjölfar kaupanna.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×