Innlent

Bjóða starfs­fólki að læra ís­lensku með gervi­greind

Helena Rós Sturludóttir skrifar
Malgorzata Anna Kodziolka kemur frá Póllandi hefur hefur starfað hér á landi í um 16 ár.
Malgorzata Anna Kodziolka kemur frá Póllandi hefur hefur starfað hér á landi í um 16 ár. Vísir/Ívar

Íslenskt stórfyrirtæki, þar sem erlent starfsfólk er í miklum meirihluta, býður því upp á íslenskukennslu með gervigreind. Forstjóri fyrirtækisins segir markmiðið að efla sjálfstraust og gleði starfsmanna ásamt því að veita betri þjónustu.

Þjónustufyrirtækið Dagar er með tæplega 900 manns í vinnu og þar af hafa ríflega 80 prósent þeirra annað móðurmál en íslensku. Fyrirtækið hefur löngum boðið starfsfólki sínu upp á íslenskunámskeið en ákváðu að taka það skrefinu lengra með innleiðingu Bara tala smáforritsins. Forritið er stafrænn íslenskukennari sem byggir á gervigreind og íslenskri máltækni, þar sem íslenskan er kennd í gegnum leik.

„Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að styðja okkar fólk í að ná tökum á íslensku til að auka sjálfstraust og gleði í vinnunni og til þess að geta veitt enn betri þjónustu til okkar viðskiptavina,“ segir Pálmar Óli Magnússon forstjóri Daga. 

Pálmar Óli Magnússon, forstjóri Dagar, er spenntur að sjá viðtökur starfsmanna á íslensku kennslunni. Vísir/Ívar

Eftir kórónuveirufaraldurinn hafi fyrirtækinu langað að bjóða starfsfólki upp á fleiri möguleika til að læra tungumálið. „Þetta hentar fyrir alla því þetta byggir á myndum. Kosturinn við þetta umfram mörg önnur tæki og tól sem eru til núna er að það þarf ekki að millilenda í öðru tungumáli eins og ensku,“ segir Pálmar.

Anna sem kemur frá Póllandi og vinnur hjá Dögum og ein þeirra sem hefur hafið notkun á forritinu segir það afar hjálplegt. Þau læri skref fyrir skref að tala eingöngu íslensku. „Kannski í næstu viku eða á næsta ári,“ segir Anna sem æfir sig reglulega í íslensku í forritinu. Hún segir starfsfólk ánægt með forritið og að þau grínist stundum með það sín á milli hversu langt þau séu komin í æfingum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×