Fótbolti

Barcelona og Juventus með sigra

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Dušan Vlahović byrjar nýtt tímabilið af krafti.
Dušan Vlahović byrjar nýtt tímabilið af krafti. Alessandro Sabattini/Getty Images

Juventus hefur tímabilið í Serie A, ítölsku úrvalsdeildinni á öruggum 3-0 útisigri. Spánarmeistarar Barcelona eru þá komnir á sigurbraut í La Liga eftir 2-0 sigur í kvöld.

Juventus lenti ekki í teljandi vandræðum gegn Udinese. Federico Chiesa kom gestunum yfir strax á 2. mínútu. Þegar 20 mínútur voru liðnar fékk Juventus svo vítaspyrnu. Dušan Vlahović, sem lagði upp fyrsta markið, fór á punktinn og tvöfaldaði forystu Juventus.

Áður en fyrri hálfleikur var úti var staðan orðin 3-0, Adrien Rabiot með markið og leikurinn svo gott sem búið. Ekkert var skorað í síðari hálfleikur og sannfærandi sigur Juventus staðreynd.

Þórir Jóhann Helgason sat allan tímann á varamannabekknum þegar Lecce vann 2-1 sigur á Lazio.

Spánarmeistararnir skoruðu tvö í lokin

Það tók Spánarmeistara Barcelona töluverðan tíma að klára leik dagsins gegn Cádiz í spænsku úrvalsdeild karla í knattspyrnu.

Staðan var markalaus allt þangað til á 82. mínútu leiksins en þá loks skoraði Pedri eftir sendingu frá İlkay Gündoğan. Í blálok uppbótartíma kláraði Ferrán Torres svo leikinn. Robert Lewandowski stakk þá boltanum í gegnum vörn gestanna og Torres kláraði vel.

Lokatölur 2-0 og meistararnir með fjögur stig að loknum tveimur leikjum í La Liga. Þá gerðu Real Betis og Atlético Madríd markalaust jafntefli.


Tengdar fréttir

Lyng­by í efri hlutanum eftir góðan sigur

Íslendingalið Lyngby vann 1-0 heimasigur á Randers í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu og er sem stendur í efri hluta deildarinnar. Virðist sem lærisveinar Freys Alexanderssonar ætli sér ekki að endurtaka leik síðasta tímabils og vera í fallbaráttu allt til lokadags.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×