Enski boltinn

Enska úr­vals­deildin vart farin af stað en dóm­gæslan á strax undir högg að sækja

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Bruno Fernandes var ekki sáttur með að fá ekki vítaspyrnu en fékk gult spjald.
Bruno Fernandes var ekki sáttur með að fá ekki vítaspyrnu en fékk gult spjald. Rob Newell/Getty Images

Fimm leikir í 2. umferð ensku úrvalsdeildarinnar fóru fram í gær, laugardag, og segja má að dómgæslan sé í brennidepli eftir þá. 

Dómgæslan í deildinni var strax til umræðu að lokinni 1. umferð þar sem Liverpool taldi sig eiga að hafa fengið vítaspyrnu gegn Chelsea þegar boltinn fór í höndina á Nicolas Jackson innan vítateigs.

Nú vildi Manchester United fá vítaspyrnu í stöðunni 0-0 þegar boltinn fór augljóslega í höndina á Cristian Romero, miðverði Tottenham Hotspur, innan vítateigs. Bjarni Þór Viðarsson, sérfræðingur á Símanum, sagði í útsendingu Símans að um klára vítaspyrnu væri að ræða.

Bruno Fernandes, leikmaður Man United, sagðist reikna með að lið hans fengi opinberlega afsökunarbeiðni líkt og Úlfarnir fengu eftir 1-0 tap á Old Trafford í 1. umferð. Þá rauk André Onana út í fyrirgjöf og lenti á leikmanni Úlfanna án þess að koma við boltann.

Engin vítaspyrna var dæmd en eftir leik gáfu dómarasamtök Englands út yfirlýsingu þess efnis að um klára vítaspyrnu væri að ræða.

Þrátt fyrir 3-1 sigur Liverpool á Bournemouth þá var Jürgen Klopp, þjálfari liðsins, allt annað en sáttur með rauða spjaldið sem Alexis Mac Allister fékk.

Klopp má vel vera reiður en Gary Lineker, þáttastjóranndi Match of the Day og fyrrum landsliðsmaður Englands tók í sama streng.

Að endingu lét Marco Silva, þjálfari Fulham, dómarann heyra það eftir 0-3 tap sinna manna gegn Brentford. Annað mark Brentford kom úr vítaspyrnu og fékk Tim Ream að líta sitt annað gula spjald þegar hún var dæmd. Það var Silva ósáttur með.

„Þeir fengu hornspyrnu og vítaspyrnu í kjölfarið sem aðeins dómarinn sá. Leikmenn mínir voru mjög hissa á ákvörðun dómarans. Ég hef séð þetta tíu sinnum núna og sá ekkert athugavert við atvikið, bara dómarinn og myndbandsdómarinn sáu þetta,“ sagði Silva. Þá bætti hann við að Fulham myndi fá 200 gul spjöld í fyrstu 10 leikjum tímabilsins haldi þetta áfram.

Myndbandstæknin [VAR] átti að aðstoða dómara við að taka réttar ákvarðanir en miðað við fyrstu leiki ensku úrvalsdeildarinnar þetta tímabilið virðist VAR bara ætla að auka á vanlíðan allra þeirra sem fylgjast með deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×