Innlent

Stundin runnin upp til að berjast fyrir móður­málinu

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Bubbi Morthens hefur miklar áhyggjur af stöðu tungumálsins.
Bubbi Morthens hefur miklar áhyggjur af stöðu tungumálsins. Vísir/Vilhelm

Bubbi Morthens segir Ís­lendinga vera komna á þann stað að þeir þurfi að spyrja sig hvort þeir vilji tala ís­lensku á­fram, tungu­málið sé að verða horn­reka í orðsins fyllstu merkingu. Hann segir stundina hafa runnið upp þar sem berjast þurfi fyrir móður­málinu.

Bubbi lýsir skoðunum sínum í að­sendri grein í Morgun­blaðinu. Hann segir Ís­land ekki vera lengur það sem það var þegar hann var ungur. Nú sé varla til sá blettur þar sem ekki megi sjá fót­spor og rusl. Höfuð­borgin Reykja­vík sé þakin skiltum á ensku.

„Allir veitinga­staðir eru með ensku sem fyrsta mál, mat­seðlar þar með taldir, og það sem meira er: það talar enginn ís­lensku á þessum stöðum – sumir segja vegna þess að Ís­lendingar fáist ekki í störfin. Og dropinn holar steininn. Ís­lenskan sem tungu­mál er að verða horn­reka í orðsins fyllstu merkingu.“

Telur okkur í auga stormsins

Bubbi segir að það megi vera að ráða­fólki þjóðarinnar finnist þetta létt­vægt og taki fagnandi bréfum skrifuðum á ensku frá Sam­tökum at­vinnu­lífsins sem vilji undan­þágu fyrir skipa­fé­lagið Eim­skip.

„En þá er það vegna þess að við erum í auga stormsins þar sem lognið er. En fyrir utan geisar fár­viðri – felli­bylur. Og hann hefur nafn og hann heitir Enska. Felli­bylurinn Enska fer yfir landið og rífur tungu­málið okkar upp með rótum úr jarð­vegi sínum.“

Bubbi segist hafa hugsað um lögin sín um daginn. Blind­sker, Rómeó og Júlíu, Afgan, Gott að elska, Fjöllin hafa vakað, Synetu og Regn­bogans stræti svo ein­hver séu nefnd. Öll hafi þau verið samin á ís­lensku og fyrir fólkið sem talar og skilur málið.

„Ís­lenskan er kjarninn í list minni, hjartað í lögunum. Ég hef verið hæddur og smættaður fyrir það að ég væri skrif­blindur, ekki skrifandi á ís­lensku. Hér áður fyrr töldu mennta­menn mig jafn­vel ógna tungu­málinu. Þó er það svo að ís­lenskan mín er auð­skilin og lögin mín hafa ratað í hjarta þjóðarinnar vegna þess að þau eru sungin á ís­lensku.“

„Viljum við tala ís­lensku?“

„Við erum komin á þann stað að við verðum að spyrja okkur öll sem hér búum: Viljum við tala ís­lensku? Viljum við lesa ís­lensku? Viljum við syngja ís­lensku lögin okkar með öllum orðunum sem við skiljum með hjartanu og sálinni?“

Sé svarið já segir Bubbi að ekki sé lengur hægt að sitja hjá. Rísa verði upp, sú stund sé runnin upp að berjast fyrir móður­málinu. Bubbi segir um enga dramatík að ræða, heldur stað­reynd.

„Ríkis­stjórn Ís­lands, þing­menn lands og þjóðar, lista­menn, lands­menn, allir, hvar sem við erum stödd: Stöndum í lappirnar. Ferða­iðnaðurinn allur, takið ykkur tak. Að græða er eitt, hernaður gegn tungu­málinu er annað og al­var­legra en svo að þögnin fái að ríkja bara vegna þess að ein­hverjir eru að græða.“

Án tungu­málsins sé Ís­land bara klettur norður í Dumbs­hafi með fal­lega náttúru. Ekki þjóð í eigin landi.

„Ég full­yrði að það er sér­stök nautn, sem erfitt er að út­skýra, að syngja á ís­lensku. Að lesa Hall­grím Helga­son á ís­lensku er annað en að lesa hann á dönsku. Sama má segja um Jón Kalman eða Gerði Krist­nýju og ljóðin hennar. Eða Þórarin Eld­járn, sem hefur ort þannig að málið okkar verður tært sem lækur, og Jónas eða Einar Ben. og öll þau sem hafa rutt brautina.“

Allir vel­komnir

Bubbi segir alla vel­komna hingað. Fólkið sem vilji koma auðgi landið okkar og menningu en mikil­vægt sé að hjálpa þeim með því að kenna þeim málið okkar.

„Ís­lenskan er límið sem bindur okkur öll saman, móðir okkar, faðir okkar, í raun okkar æðri máttur. Á ís­lensku má alltaf finna svar sagði skáldið og við verðum ekki seinna en núna að finna svarið við hernaðinum gegn móður­málinu. Fjör­egginu okkar. Við verðum öll sem eitt að stíga fast niður og rísa upp til varna.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×