Erlent

Segjast hafa af­hjúpað kín­verskan njósnara sem CIA tældi

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Kínverskir hermenn marsera á Tiananmen-torgi. Hinn 52 ára Zeng færði CIA gögn um kínverska herinn.
Kínverskir hermenn marsera á Tiananmen-torgi. Hinn 52 ára Zeng færði CIA gögn um kínverska herinn. EPA/How Hwee Young

Kínversk yfirvöld segjast hafa afhjúpað kínverskan njósnara sem vann fyrir Leyniþjónustu Bandaríkjanna (CIA). Maðurinn vann í kínverskum hergagnaiðnaði og á að hafa boðist að flytja til Bandaríkjanna í skiptum fyrir viðkvæmar hernaðarupplýsingar.

Varnarmálaráðuneyti Kína greindi frá þessu í tilkynningu í dag. 

Þar segir að hinn 52 ára Zeng hafi verið sendur til Ítalíu í nám á vegum vinnu sinnar. Á Ítalíu kynntist hann Seth nokkrum, fulltrúa leyniþjónustunnar hjá bandaríska sendiráðinu í Róm, og urðu þeir góðir vinir. 

Seth hafi sannfært Zeng um að gefa sér „viðkvæmar upplýsingar um kínverska herinn“ í skiptum fyrir væna þóknun og hjálp við að koma Zeng og fjölskyldu hans til Bandaríkjanna að sögn ráðuneytisins.

Vinskapur umbylti pólitískri afstöðu

Seth og Zeng þróuðu með sér „náið“ samband í gegnum kvöldverði, hittinga og ferðir í óperuna. Smátt og smátt varð Zeng „sálfræðilega háður Seth“ að sögn varnarmálaráðuneytisins. 

CIA-fulltrúinn hafi nýtt sér það til að „innræta Zeng með vestrænum gildum. Freistingar Seth komu pólitískri afstöðu Zeng úr jafnvægi,“ segir í Global Times, gulu pressu kínverska kommúnistaflokksins.

Samkvæmt CCTV á Zeng að hafa skrifað undir njósnasamkomulag við Bandaríkin og hlotið viðeigandi þjálfun áður en hann sneri aftur til Kína til að vinna að njósnum. Þar hafi hann hitt fulltrúa CIA mörgum sinnum, fært þeim upplýsingar og fengið greitt úr sjóðum leyniþjónustunnar.

Ekki kemur fram hvenær málsatvik áttu sér stað en mál Zeng hefur verið sent til kínverskra saksóknara.


Tengdar fréttir

Sjóliðar seldu leynilegar upplýsingar til Kína

Tveir bandarískir sjóliðar voru hafa verið handteknir og ákærðir fyrir að senda viðkvæmar og leynilegar upplýsingar til kínverskra útsendara. Annar þeirra var handtekinn á miðvikudaginn þegar hann mætti í vinnu í flotastöðinni í San Diego en hinn vann í flotastöð í Kaliforníu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×