Lífið

Portúgalskur prestur þeytir skífum á nætur­klúbbum

Magnús Jochum Pálsson og Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifa
Guilherme sýnir alvöru takta þegar hann þeytir skífum.
Guilherme sýnir alvöru takta þegar hann þeytir skífum. Stöð 2

Portúgalskur prestur hefur leitað á ný mið til að boða ungu fólki trúnna. Hann þeytir skífum í næturklúbbum í frítíma sínum og spilaði fyrir 1,5 milljón manns í Lissabon á útihátíð á sunnudag.

„Ég reyni að tala sama tungumál og unga fólkið og umgangast það. Það var aldrei ætla mín að spila til að fá þau inn í kirkjuna. Nei, það var aldrei ætlunin,“ sagði séra Guilherme Peixoto í viðtali við portúgalska fréttamiðla.

„Tilgangurinn var alltaf að umgangast þau og færa þeim mína gleði, trú mína og andlegu upphafningu. Ég vildi færa þeim þetta í gegnum tónlistina,“ sagði hann einnig.

„Ef ég finn ekki fyrir því sem ég geri get ég ekki tjáð það öðrum. Hafi ég áhyggjur af því hver sé að fylgjast með finn ég að ég er undir álagi og það er óþarfi. Mikilvægast er að njóta tónlistarinnar. Ég gerði tilraunir og skoðaði alla möguleika tónlistarinnar,“ sagði hann um tónlistina.

Guilherme segist hafa haft mikinn áhuga á raftónlist í gegnum tíðina en fallið fyrir teknóinu.

„Afróhústónlis, hústónlist, tekknótónlist og norræn-tekknótónlist og í gegnum þessar tilraunir á tónleikum mínum varð þessi hljómveggur til. Prestur góður, gleymdu þessu og spilaðu tekknó. Þau hvöttu mig til dáða. Spila tekknó? Klikkuð hugmynd,“ sagði Guilherme.

Spilaði fyrir milljón manna

Séra Guilherme er gríðarlega vinsæll plötusnúður og spilaði á alþjóðlegri hátíð kaþólskra ungmenna í Lissabon á sunnudag. Hátíðin endaði með risastórri messu utandyra þar sem um ein og hálf milljón manna hlustuðu á DJ-sett hans.

Hann endaði sett sitt á að blanda ræðubútum sínum inn í tónlistina þar sem hann sagði kirkjuna vera stað fyrir allra og sagðist óska sér heimsfriðar.

Lokaorðinu voru síðan „Í lífinu er ekkert ókeypis, það kostar allt. Það er bara eitt sem er ókeypis: ást Jesú.“

Hér fyrir neðan má hlusta á DJ-sett Guilherme í heild sinni:






Fleiri fréttir

Sjá meira


×