Innlent

Sér­sveit kölluð að Al­þingi eftir að til­kynnt var um hugsan­legt skot­vopn

Eiður Þór Árnason skrifar
Fjölmörg mál komu inn á borð lögreglu í gær.
Fjölmörg mál komu inn á borð lögreglu í gær. vísir/vilhelm

Sérsveit og lögregla voru send að Alþingi eftir að tilkynnt var að einstaklingur bæri hugsanlegt skotvopn við þinghúsið. Þegar sá komst í leitirnar reyndist einstaklingurinn vera með kveikjara sem var eftirlíking af skammbyssu. Var hann handtekinn og fluttur á lögreglustöð.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu en einstaklingurinn er sagður glíma við andleg veikindi. Annasamt var hjá lögreglu í gærkvöld og nótt og voru allir fangaklefar á stöðinni á Hverfisgötu fullir í morgun. Var því einnig notast við fangaklefa í Hafnarfirði. 

Lögregla stöðvaði bifreið sem í reyndust vera sex erlendir einstaklingar. Að sögn lögreglu voru þeir allir frá landi utan Schengen-svæðisins og gátu einungis tveir þeirra framvísað skilríkjum.

„Reyndust þeir einnig vera búnir að vera í landinu lengur en þeir hafa leyfi til. Hinir fjórir gátu ekki framvísað neinum skilríkjum. Allir aðilar vistaðir í fangaklefa á meðan rannsókn málsins stendur yfir,“ segir í tilkynningu.

Klemmdist á fótum

Tilkynnt var um vinnuslys þar sem einstaklingur klemmdist á fótum eftir að lyftari rann til. Ekki er vitað um alvarleika áverka. Í öðru máli kom eldur upp í klæðningu sem kviknaði út frá gasgrilli. Að sögn lögreglu náðu húsráðendur að slökkva eldinn áður en lögregla og slökkvilið komu á staðinn.

Tilkynnt var um farsímaþjófnað úr starfsmannarými á veitingastað í miðborginni. Gerandi fannst seinna eftir ábendingu frá almennum borgara og var handtekinn. Þegar búið var að flytja einstaklinginn upp á stöð  fannst einnig hnífur á honum, að því er fram kemur í tilkynningu lögreglu sem segir málið hafa verið klárað með hefðbundnu ferli.

Alls voru 110 mál skráð frá klukkan 17 í kerfi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en þeirra á meðal voru ýmis umferða- og líkamsárásamál.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×