Innlent

Óku um bæinn á vespu og frömdu vopnuð rán

Árni Sæberg skrifar
Annað ránið var framið í Hamraborg í Kópavogi.
Annað ránið var framið í Hamraborg í Kópavogi. Stöð 2/Arnar

Tveir hafa verið handteknir vegna tveggja vopnaðra rána í dag í Reykjavík og Kópavogi. Mennirnir óku um á vespu og rændu gangandi vegfarendur.

Þetta staðfestir vakthafandi varðstjóri á lögreglustöðinni á Hverfisgötu í samtali við Vísi. Hann segir mennina fyrst hafa rænt fólk í Fossvogi og síðan ekið áleiðis í Hamraborg í Kópavogi og framið annað rán.

Óku nánast niður hjón

Kona sem býr í hverfi 108 greindi frá því í Facebook-hópi íbúa hverfisins að hún hafi verið á göngu með eiginmanni sínum við Grímsbæ við Bústaðarveg þegar þau mættu tveimur mönnum á vespu á ógnarhraða.

„Við rétt náðum að forða okkur og maðurinn minn kallar á þá að hægja á sér. Þá snarstansa þeir, voru tveir ungir menn, og ganga mjög ógnandi að okkur. Annar dregur upp stóran hníf og ógnar manni mínum með hnífinn á lofti og heimtar verðmæti,“ segir konan.

Enginn er særður

Varðstjóri staðfestir að mennirnir hafi verið vopnaðir en kveðst ekki búa yfir upplýsingum um hvers kyns vopn þeir báru. Hann segir að engum hafi orðið meint af ránunum.

Þá segir hann að lögreglu hafi tekist að endurheimta allavega hluta þeirra verðmæta sem mennirnir rændu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×