Innlent

„Ögrun við tungu­málið okkar“

Máni Snær Þorláksson skrifar
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra, hefur mjög sterka skoðun þegar kemur að merkingum, íslenskan eigi að koma fyrst.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra, hefur mjög sterka skoðun þegar kemur að merkingum, íslenskan eigi að koma fyrst. Vísir/Vilhelm

Ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra segir að allar merkingar eigi fyrst að vera á íslensku. Það hafi til að mynda verið ögrun við íslenska tungu þegar Isavia setti upp skilti sem voru fyrst á ensku.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra, segir í samtali við fréttastofu að hún hafi mjög sterka skoðun á því þegar íslenska er ekki notuð fyrst í merkingum hér á landi. „Þar erum við farin út af sporinu.“

Reglulega vekja merkingar á ensku athygli netverja sem bölva og gagnrýna fyrirtæki og stofnanir fyrir að setja íslenskuna ekki í fyrsta sæti. Enskan hefur orðið mun algengari í merkingum og auglýsingum hér á landi síðan ferðaþjónustan fór að verða ein af helstu atvinnugreinum landsins.

Árið 2016 fjallaði Vísir um hvernig flestallar merkingar í miðbænum væru á ensku. Síðan þá hefur reglulega verið vakin athygli á því þegar auglýsingar og vörur eru ekki á íslensku.

„Það eiga allar merkingar að vera fyrst á íslensku,“ segir Lilja. Ferðaþjónustan fari út af sporinu þegar hún notar ekki íslensku fyrst. 

Til að mynda vekur hún athygli á því þegar sett voru upp skilti á Keflavíkurflugvelli sem voru fyrst á ensku og svo á íslensku. „Isavia hefur sagst ætla að breyta skiltunum sínum en það voru mikil mistök hjá þeim að setja upp skilti fyrst á ensku og ögrun við tungumálið okkar.“

Lilja segist ætla að leggja fram þingsályktunartillögu á Alþingi í haust. Með tillögunni eigi að leggja mun meiri áhersu á tungumálið. 

„Annars vegar fyrir þá innflytjendur sem búa hér, þar sem við erum að setja meiri skyldur á þau að læra íslensku. Hins vegar að íslenskan sé miklu sýnilegri en hún hefur verið og við erum að fara í samstarf við ferðaþjónustuna og atvinnulífið um að tekin verði mun ákveðnari skref til þess að gera íslenskunni hærra undir höfði og gera hana sýnilegri.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×