Fótbolti

Sky Sports: Chelsea, Man Utd, Totten­ham, Inter og Barcelona hafa á­huga á Mbappé

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mbappé er orðaður við lið á Englandi, Ítalíu og Spáni.
Mbappé er orðaður við lið á Englandi, Ítalíu og Spáni. EPA-EFE/MOHAMMED BADRA

Sky Sports heldur því fram að Chelsea, Manchester United, Tottenham Hotspur, Inter Milan og Barcelona hafi öll áhuga á að fá Kylian Mbappé í sínar raðir. Þá hefur verið greint frá því að Al Ahli í Sádi-Arabíu vilji gera Mbappé að dýrasta leikmanni í heimi.

Hinn 24 ára gamli Mbappé virðist ætla að einoka fyrirsagnirnar í sumar. Hann vill klára síðasta ár sitt hjá París Saint-Germain svo hann geti farið frítt næsta sumar. PSG vill hins vegar selja leikmanninn og hefur þegar samþykkt tilboð frá Sádi-Arabíu.

Nú greinir Sky Sports frá því að nokkur af stórliðum Evrópu hafi áhuga á að fá Mbappé í sínar raðir. Hvort þau hafi efni á honum eða hvort Mbappé hafi áhuga á að fara þangað er svo önnur spurning.

Simon Stone, blaðamaður hjá breska ríkisútvarpinu, greinir frá því að PSG sé tilbúið að lána leikmanninn út næstu leiktíð gegn því að félagið sem taki hann á láni borgi allan hluta launa hans sem og lánsgjald.

Stone segir að sama skapi að Man United sé hvorki með Mbappé né Harry Kane á óskalista sínum að svo stöddu.

Mbappé var á sínum tíma við það að ganga í raðir Real Madríd á Spáni. Hann ákvað að halda kyrru fyrir í París en nú er talið næsta öruggt að hann semji við Real þegar samningur hans við PSG rennur út sumarið 2024.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×