Erlent

Nýtt lyf gegn Alz­heimer's sagt marka tíma­mót

Eiður Þór Árnason skrifar
Nýja lyfið er þróað af bandaríska lyfjafyrirtækinu Lilly & Co.
Nýja lyfið er þróað af bandaríska lyfjafyrirtækinu Lilly & Co. Ap/Darron Cummings

Nýtt lyf er sagt marka tímamót í baráttunni gegn Alzheimer's sjúkdómnum eftir að niðurstöður lyfjarannsóknar gáfu til kynna að það hægi á hnignun heilans.

Mótefnalyfið donanemab er talið hafa jákvæð áhrif á fyrstu stigum sjúkdómsins með því að fjarlægja prótein sem safnast upp í heilum fólks með Alzheimer's.

Ekki er um lækningu að ræða heldur lyf sem gæti gert sjúkdóminn viðráðanlegri og haldið aftur af honum. Breska ríkisútvarpið greinir frá þessu og vísar í rannsóknarniðurstöður sem birtust í fræðiritinu JAMA í dag.

Bresk heilbrigðisyfirvöld kanna nú hvort notkun lyfsins verði leyfð þar í landi. Niðurstöðurnar benda til þess að lyfið hafi hægt á framgangi Alzheimer's sjúkdómsins um þriðjung og þannig gert fólki kleift að ráða betur við daglegar athafnir á borð við eldamennsku og að sinna áhugamálum. Sjúklingar sem fengu lyfið mánaðarlega í æð hrakaði um fjórum til sjö mánuðum hægar en þeir sem fengu lyfleysu. 

Ekki fyrsta lyfið af þessum toga sem kemur fram á sjónarsviðið 

Donanemab er þróað af fyrirtækinu Eli Lilly og virkar á svipaðan hátt og lyfið lecanemab. Það síðarnefnda komst í heimsfréttirnar í fyrra þegar talið var sýnt fram á að það gæti hægt á framþróun sjúkdómsins hjá þeim sem greinast mjög snemma.

Rannsóknarniðurstöður fyrir Donanemab eru sagðar lofa góðu en áhætta fylgir þó notkun lyfsins. Aukaverkanir á borð við heilabólgur fundust hjá um þriðjungi þátttakenda í rannsókninni. Í flestum tilfellum virtist þetta ganga til baka án vandkvæða en talið er að tveir, eða jafnvel þrír, einstaklingar hafi látist af völdum hættulegrar bólgu í heila.

Leyfisumsókn fyrir annað mótefnalyf gegn Alzheimer's sem ber heitið aducanumab var nýlega hafnað af evrópskum lyfjayfirvöldum vegna efasemda um öryggi þess og skorts á gögnum sem studdu fullyrðingar um jákvæða virkni þess.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×