Innlent

Stöðvun strand­veiða mót­mælt: „Jafn­margir þorsk­hausar utan Al­þingis­hússins og innan þess“

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Kári Stefánsson skaut föstum skotum á matvælaráðherra á mótmælunum í dag.
Kári Stefánsson skaut föstum skotum á matvælaráðherra á mótmælunum í dag. Vísir/Ívar Fannar

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sagði Alþingi ekki vera að vinna vinnuna sína í tengslum við aflaheimildir strandveiða á mótmælum Strandveiðifélags Íslands gegn stöðvun strandveiða á Austurvelli í dag.

Félag strandveiðimanna stóð í dag fyrir mótmælum gegn stöðvun strandveiða, sem strandveiðimenn segja ótímabæra. Kári Stefánsson var meðal þeirra sem fór með erindi á mótmælunum. 

„Strandveiðar eru áframhald á þeim lífsstíl sem bjó til sjálfsmynd Íslendinga um langan aldur. Okkur ber skylda til þess að hlúa að þeim með öllum tiltækum ráðum. Þegar ráðherra sem hefur látið hafa það eftir sér að hún sé hlynnt strandveiðum segir nú að ekki sé lagaheimild fyrir að auka aflaheimildir strandveiða, er hún að benda okkur á, svo ekki verður um villst, að alþingi Íslendinga sé ekki að vinna vinnuna sína,“ sagði Kári Stefánsson í erindi sínu á mótmælunum.

„Þegar ég flutti ávarp í Grindavík á sjómannadaginn og sagði að það væri kominn tími á sjómannabyltingu á Íslandi, grunaði mig engan veginn að það væri þegar svo mikil ólga á meðal strandveiðihluta stéttarinnar að innan skamms yrðu þorskhausum komið fyrir á tröppum Alþingis. Að vandlega athuguðu máli finnst mér sá gjörningur hins vegar hafa verið svo nálægt því að vera viðeigandi. Það eina sem vantaði upp á til þess að svo væri var að gæta þess að hafa þorskhausana á tröppunum sextíu og þrjá, þannig að það væru jafnmargir þorskhausar utan Alþingishússins og innan þess,“ sagði hann einnig. 

Síðasti dagur strandveiða var 11. júlí og var þar með um að ræða stystu vertíðina í sögu strandveiða hér á landi. Strandveiðunum hefur iðulega lokið í ágúst en í ár var strandveiðikvótinn alls 8.527 tonn. Mikil óánægja er meðal strandveiðimanna um þessa tilhögun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×