Innlent

Samþykkja minni hækkun launa

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Frá fundi borgarstjórnar í Ráðhúsinu.
Frá fundi borgarstjórnar í Ráðhúsinu. vísir/vilhelm

Laun borgarfulltrúa hækka um 2,5 prósent frá fyrsta júlí síðastliðnum, í stað 7,88 prósent samkvæmt þróun launavísitölu frá nóvember 2022 til maí 2023. Borgarstjóri mun einnig óska eftir sömu breytingum á sínum launum.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg kemur fram að borgarráð hafi samþykkt að hækka launin minna vegna efnahagsaðstæðna.

Þannig munu grunnlaun borgarfulltrúa hækka úr 963.647 krónum í 987.738 kr. á mánuði. Hækkunin nemur því 24.091 kr. á mánuði utan launatengdra gjalda í stað hækkunar um 76.000 kr. væri launavísitölu fylgt. Álagsgreiðslur og starfskostnaður hækka hlutfallslega með sama hætti.

Í greinargerð með tillögunni kemur fram að laun borgarfulltrúa taki breytingum tvisvar á ári samkvæmt ákvörðun borgarstjórnar, þann 1. janúar og 1. júlí ár hvert og miðast hækkunin við þróun launavísitölu samkvæmt Samþykkt um kjör og starfsaðstöðu kjörinna fulltrúa Reykjavíkurborgar

„Vísitala launa hækkaði um 7,88% frá nóvember 2022 og fram í maí síðastliðinn en vegna efnahagsaðstæðna er lagt til að hækkun á launum kjörinna fulltrúa verði minni en samþykktir borgarstjórnar gera ráð fyrir. Að jafnaði hækka laun kjörinna aðalfulltrúa í borgarstjórn á bilinu 24.091 kr. til 42.160 kr. þegar álagsgreiðslur hafa verið teknar með. Starfskostnaður hækkar um 1.740 kr. og verður 71.334 kr. Samanlögð kostnaðaráhrif á árinu 2023 eru áætluð sjö milljónir króna miðað við tímabilið júlí til desember í stað 22,1 milljón ef tekið væri mið af þróun launavísitölu,“ segir í tilkynningu. Og ennfremur:

„Þess má geta að borgarstjórn þáði ekki hækkun samkvæmt úrskurði kjararáðs nr. 2016.3.001 og samþykkti í framhaldinu breytingar þess eðlis að tekin var upp tenging við launavísitölu til þess að endurspegla betur almenna launaþróun.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×